Jóhannes Karl Guðjónsson, nýráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var kynntur í höfuðstöðvum KSÍ í dag. Hann segist stoltur og hræður að vera kominn í þessa stöðu en að sama skapi erfitt fyrir hann að yfirgefa ÍA þar sem hann þjálfaði áður.

Jóhannes segir aðdragandann að starfinu ekki hafa verið langan. ,,Þegar að skilaboðin komu frá KSÍ, um að ég væri efstur á blaði hjá Arnari í þetta starf, fékk ég leyfi frá ÍA til þess að fara í nánari viðræður við Arnar og KSÍ. Á endanum tók það ekki langan tíma fyrir mig að átta mig á því að þetta væri risastórt tækifæri."

Hann segist vera stoltur og hræður yfir því að vera orðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari. ,,Það er mikill heiður fyrir mig að fá þetta starf en á sama tíma náttúrulega gríðarlega erfitt að kveðja Skagann. Það sem að hjálpaði mér í þessari ákvörðun var hins vegar það hversu faglegir þeir voru í sinni vinnu, sýndu því skilning og það er náttúrulega í stefnu félagsins að standa ekki í vegi fyrir framþróun þjálfara og leikmanna," sagði Jóhannes Karl í samtali við Fréttablaðið í dag.

Jóhannes Karl og Arnar Þór mynda nýtt teymi hjá A-landsliði karla
Fréttablaðið/Ernir

Fagleg vinnubrögð auðvelduðu ákvörðunina

,,Auðvitað var þetta erfitt fyrir alla aðila en virkilega faglega gert og það hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun sem ég tel vera rétta fyrir mig á þessum tímapunkti."

Jóhannes Karl tjáði leikmönnum ÍA frá ákvörðun sinni á fundi í gær. ,,Ég var búinn að vera þarna í tæp fimm ár og á þeim tíma hef ég unnið með rosalega góðu fólki. Þetta voru alveg krefjandi tímar á köflum en mjög skemmtilegir í heild sinni. Það var mjög erfitt fyrir mig í gær að tilkynna leikmönnum ÍA að ég væri að fara, að sama skapi var erfitt að leggjast á koddann í gær og átta sig á því að maður væri að fara af Skaganum."

Hann segir það hins vegar hjálpa til að vera fara inn í gríðarlega spennandi starf hjá landsliðinu og KSÍ en auk Jóhannesar var Grétar Rafn kynntur sem tæknilegur ráðgjafi á blaðamannafundinum í dag.

,,Grétar Rafn kemur líka inn sem er gríðarlega spennandi fyrir mig að vinna með honum sem og Arnari sem ég tel að hafi gert fullt af góðum hlutum. Það eru krefjandi tímar framundan en á sama tíma bara mjög spennandi tímar sem ég hlakkar til að takast á við," sagði Jóhannes Karl, aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins.

Jóhannes Karl var hræður og stoltur yfir því að vera ráðinn í starfið
Fréttablaðið/Ernir

Mun vinna með syni sínum

Jóhannes Karl er í sömu stöðu og fyrirrennari sinn í starfinu, Eiður Smári Guðjohnsen, að því leytinu til að sonur hans er orðinn reglulegur hluti af landsliðshópi Íslands. Jóhannes er faðir eins efnilegasta knattspyrnumanns Íslands þessa stundina, Ísaks Bergmanns, leikmanns FC Kaupmannahafnar.

,,Ég spenntur fyrir því að vinna með syni mínum og á sama tíma er mikið af ungum og efnilegum leikmönnum þarna sem hafa lagt alveg gríðarlega vinnu á sig til þess að ná árangri og eru margir hverjir komnir á góðan stað hjá sínum félagsliðum. Frábærir leikmenn með metnað til þess að ná langt. Ísak er náttúrulega bara einn af mörgum leikmönnum Íslands sem eru mjög spennandi til lengri tíma. Auðvitað þurfa þeir að fá tíma til þess að gera mistök og læra af því en við í þjálfarateyminu þurfum að sjá til þess að þeir séu ekki að gera sömu mistökin oft."

Ísak Bergmann, sonur Jóhannesar Karls í leik með íslenska landsliðinu
GettyImages

Vinna sem geti á endanum komið okkur á stórmót

Stefnan er skýr hjá Jóhannesi og þjálfarateymi Íslands.

,,Til lengri tíma litið viljum við bæta okkur og vinna fleiri leiki, við værum ekki í þessu nema af því að við viljum ná því markmiði aftur fyrir KSÍ og íslensku þjóðina og höfum trú á því sjálfir að með góðri vinnu og mikilli vinnusemi getum við þróað gengið í rétta átt sem mun á endanum koma okkur aftur á stórmót fyrr eða síðar," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu við Fréttablaðið.