Jóhanna Lea er fyrsti Íslendingurinn til að komast alla leið í úrslitin en áður hafði Íslendingur lengst komist í aðra umferð holukeppninni.

Hún mætti heimakonunni Shannon Stevie McWilliam í Skotlandi í dag og byrjaði leikinn af krafti. Jóhanna leiddi í upphafi en virtist vera að missa leikinn úr greipum sér um miðjan hringinn.

Þá náði Shannon þriggja holu forskoti en Jóhönnu tókst að jafna metin og knýja fram bráðabana á lokaholunni.

Par á lokaholunni innsiglaði sigur Jóhönnu í dag og þýðir að hún leikur til úrslita á morgun þar sem leiknar verða 36 holur.

Sigurvegari mótsins öðlast þátttökurétt á fjórum risamótum í kvennagolfi.