Þetta er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð í þessu gríðarlega sterka áhugakylfingamóti. Samkvæmt Golfsambandinu hefur íslenskur kylfingur aldrei komist lengra en í aðra umferð útsláttarkeppninnar.

Jóhanna mætti Kate Lanigan frá Írlandi í dag og byrjaði hringinn vel en missti forskotið til Kate þegar hringurinn var að verða hálfnaður. Hún lét það ekki á sig hafa og náði forskotinu með tveimur fuglum í röð á tíundu og elleftu braut.

Hún tryggði sér sigur með því að komast þremur holum yfir á næst síðustu holu dagsins og um leið miða í undanúrslitaeinvígið gegn Shannon McWilliam frá Skotlandi í dag.

Mótið fer fram á Kilmarnock Barassie vellinum í Skotlandi en mótið fór fyrst fram árið 1893 og er talað um þetta sem hæstu viðurkenningu sem áhugakylfingur getur unnið sér inn.

Sigurvegarinn fær keppnisrétt á fjórum risamótum hjá atvinnukylfingum, AIG mótinu, Opna bandaríska meistaramótinu, Evian meistaramótinu og Augusta National meistaramótinu.