Aron Guðmundsson
Miðvikudagur 7. september 2022
11.43 GMT

Þetta er svo­lítið grát­bros­legt og marg­hliða," segir Jóhann Már í sam­tali við Frétta­blaðið að­spurður um við­brögð við nýjustu fréttum af Chelsea. „Til að byrja með hefur byrjunin á tíma­bilinu hjá Chelsea verið rosa­lega lé­leg. Ef Roman Abramo­vich hefði enn átt fé­lagið þá hefði ég alveg séð þessa á­kvörðun verið tekna á þessum tíma­punkti, jafn­vel fyrr."

Það er ekki ýkja langt síðan eig­enda­skipti áttu sér stað hjá Chelsea. Abramo­vich seldi og inn kom hópur banda­rískra fjár­festa sem er leiddur á­fram af Todd Boehly.

„Nýju eig­endurnir sýna á spilin núna og ætla greini­lega að reka á­fram svipaðan kúltúr innan liðsins og við höfum séð á undan­förnum árum. Ef þú skilar ekki árangri strax þá er þolin­mæðin rosa­lega lítil. Maður hefði haldið að Tuchel væri búinn að vinna sér inn smá traust en að sama skapi var þetta búið að vera ó­trú­lega lé­legt undan­farið."


Það er eitt­hvað sem skeður. Tuchel er búinn að vera svo fúll í langan tíma núna, hann er búinn að vera svo ó­sáttur. Það hefur greini­lega eitt­hvað gengið á bak við tjöldin sem við vitum ekki


Todd Boehly reif í gikkinn
Fréttablaðið/GettyImages

Tuchel hafði verið knatt­spyrnu­stjóri Chelsea síðan í janúar árið 2021 og náði þeim merka árangri að gera liðið að Evrópu­meisturum á sínu fyrsta tíma­bili í starfi knatt­spyrnu­stjóra.

Árangurinn hefur, líkt og Jóhann bendir á, ekki verið upp á marga fiska í upp­hafi tíma­bils og hann telur eitt­hvað hafa gerst á bak við tjöldin hjá fé­laginu. Hann skynjaði breytingu hjá Tuchel.

„Það er eitt­hvað sem skeður. Tuchel er búinn að vera svo fúll í langan tíma núna, hann er búinn að vera svo ó­sáttur. Það hefur greini­lega eitt­hvað gengið á bak við tjöldin sem við vitum ekki."

Talið hefur verið að Tuchel væri á­hrifa­mikill innan Chelsea síðan að Petr Cech og Marina Granovska­ia, sem voru hluti af stjórnunar­teymi Abramo­vich fóru frá fé­laginu í sumar eftir brott­hvarf hans. Það var að minnsta kosti talið að Tuchel hefði mikið um hlutina að segja þó svo að sú mynd hafi verið dregin upp af Boehly að hann hagaði starfi sínu eins og hann væri í tölvu­leiknum Foot­ball Mana­ger.

Tuchel hefur verið brúnaþungur undanfarnar vikur
Fréttablaðið/GettyImages

Fyrir mér eru þetta panikk-kaup

„Þessi kaup á Pi­er­re-Emerick Auba­mey­ang. Þetta er bara gert fyrir Tuchel. Það er ekkert sem passar inn í þetta hvað varðar stefnuna sem banda­rísku eig­endur Chelsea hafa talað um. Stefnu sem felst í að kaupa unga leik­menn, leik­menn á réttum aldri. Í Auba­mey­ang var tekinn inn 33 ára gamall fram­herji."

Kaupin á Auba­mey­ang frá Barcelona hafa verið mikið í um­ræðunni á sam­fé­lags­miðlum eftir að til­kynning Chelsea um starfs­lok Tuchel var gerð opin­ber í morgun. Fé­lags­skiptin áttu að marka nýtt upp­haf á sam­starfi Tuchel og Auba­mey­ang sem gerðu góða hluti saman hjá Borussia Dort­mund á sínum tíma.

Tuchel og Aubameyang gerðu góða hluti saman hjá Dortmund
Fréttablaðið/GettyImages

„Ég var ekki hrifinn af þessum fé­lags­skiptum," segir Jóhann í sam­tali við Frétta­blaðið. „Fyrir mér eru þetta panikk-kaup, gerð á loka­degi fé­lags­skipta­gluggans. Það er aldrei gott þegar að knatt­spyrnu­fé­lög, þar sem á að byggja upp á á­kveðinni strategíu, fer og kaupir leik­menn í ein­hverju óða­goti. Þá eru menn búnir að gera eitt­hvað rangt í fé­lags­skipta­glugganum fram að því.

Auba­mey­ang er lík­legast mjög hissa núna. Hann er ný­kominn til fé­lagsins, að­eins búinn að vera þarna í nokkra daga og maðurinn sem fékk hann til Chelsea er farinn. Hann situr hins vegar á tveggja ára samningi hjá okkur og á það alla­vegna. Nýr knatt­spyrnu­stjóri mun koma inn og gefa honum tæki­færi líkt og öllum öðrum."

Einn á báti og enginn Tuchel
Fréttablaðið/GettyImages

Á­kvörðun dagsins komi á ó­vart vegna þess að eig­endur Chelsea á­kváðu að styðja Tuchel með kaupunum á Auba­mey­ang fyrir nokkrum dögum síðan­á loka­degi.

„Þetta kemur ekki allt heim og saman. Það mun eitt­hvað meira koma í ljós á næstu dögum í tengslum við þetta þegar fólk fer að leka upp­lýsingum í fjöl­miðla. Það hefur eitt­hvað gengið á. Það skeði eitt­hvað, annað hvort eftir Za­greb leikinn í gær­kvöldi eða undan­farnar vikur þar sem eig­endurnir misstu allt traust á Tuchel.

Hvað átti sér stað?

Jóhann segir mála­vexti lykta af því að það væri eins og Tuchel vildi meiri breytingar. „Hann vildi, að ég held, losna við Christian Pulisic og Ha­kim Zi­yech en banda­rísku eig­endurnir vilja ekki losa sam­landa sinn Pulisic því ef hann næst í gang er þetta ein­hver verð­mætasti knatt­spyrnu­maður sem þú getur fundið, bara út frá því hvaðan hann kemur og hvað hann hefur sýnt."

Þá séu ýmsar vís­bendingar frá stjórnunar­tíð Tuchel sem gætu ýtt undir á­kvörðunina um að láta hann fara.

„Það hafa margir leik­menn ekki náð að upp­fylla væntingarnar sem gerðar voru til þeirra undir stjórn Tuchel, sóknar­leikurinn hefur verið hræði­legur og þá fer maður að velta því fyrir sér hvort Tuchel hafi verið vanda­málið. Zi­yech, Werner, Luka­ku og Pulisic. Þetta eru rosa­lega mörg nöfn sem hafa bara ekki náð sér á strik undir stjórn Tuchel."

Það mætti ætla að Pulisic sé í ákveðnu uppáhaldi hjá samlöndum sínum, bandarísku eigendum Chelsea
Fréttablaðið/GettyImages

Með eftirmann Tuchel í huga

Strax er farið að velta því fyrir sér hver muni taka við stjórnar­taumunum hjá þessu stóra og sögu­fræga enska knatt­spyrnu­fé­lagi. Graham Potter, knatt­spyrnu­stjóri Brig­hton virðist fyrst um sinn vera efstur á blaði hjá eig­endum Chelsea og hefur Brighton gefið Chelsea leyfi fyrir því að ræða við Potter eftir því sem Sky Sports greinir frá. Þá hafa Mauricio Pochettino og Zinedine Zidane einnig verið orðaðir við stjórastöðuna hjá félaginu. Hvaða knatt­spyrnu­stjóra vill Jóhann sá á Brúnni?

„Ég vil fá Graham Potter inn, gefa honum tæki­færi. Mér finnst hann vera frá­bær knatt­spyrnu­stjóri og hef talað um það lengi. Ég byrjaði að fylgjast með honum þegar hann tók þetta Östersund ævin­týri í Sví­þjóð og það sem er gaman við hann er að liðin sem hann tekur við virðast alltaf ná að gera betur en væntingar standa til.

Gætum við séð Graham Potter í boðvangi heimaliðsins á Stamford Bridge á næstunni?
Fréttablaðið/GettyImages

Þá er hann knatt­spyrnu­stjóri sem ríg­heldur í sín gildi, ég tel hann af­skap­lega klókan stjóra. Hvort hann sé nógu stór inn í sér til að höndla svona stórt fé­lag á borð við Chelsea yrði bara að koma í ljós. Mér finnst það alla­vegana þess virði að gefa honum tæki­færi á að eiga við þetta.

Potter þekki ensku úr­vals­deildina út og inn, búinn að vera í deildinni undan­farin þrjú ár og þá hentar hans leik­skipu­lag Chelsea.

„Hann spilar oftast með þriggja manna haf­senta­kerfi og í raun hefur Tuchel verið að kaupa leik­menn inn í það kerfi. Haf­senta skipu­lagið hjá Chelsea er þannig núna að spilað er með þrjá haf­senti og Thiago Silva þar í miðjunni. Þetta myndi henta Potter mjög vel.

Silva er miðjan í hafsenta þríeyki Chelsea
Fréttablaðið/GettyImages

Jóhann undir­strikar síðan að Chelsea sé langt frá því að vera ein­hverjum ljós­árum á eftir helstu sam­keppnis­aðilum sínum.

„Liver­pool er að eiga erfitt upp­dráttar, Manchester United tapaði fyrstu leikjunum, Manchester City hefur tapað stigum. Það er ekki eins og Chelsea sé langt á eftir öðrum liðum. Það segir mér bara að það hefur eitt­hvað gerst á bak­við tjöldin. Það hefur eitt­hvað gengið á sem við vitum ekki hvað er," segir Jóhann Már Helga­son, stuðnings­maður Chelsea og spark­s­pekingur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Athugasemdir