Jóhann Berg Guðmundsson er kominn á blað með Burnley sem vann 3-0 sigur í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Jóhann lék allar 90. mínúturnar og innsiglaði sigurinn hjá heimamönnum á Turf Moor í dag eftir að Ashley Barnes hafði skorað tvö í upphafi seinni hálfleiks.

Á sama tíma lék Gylfi Þór Sigurðsson stærstan hluta leiksins í markalausu jafntefli Everton og Crystal Palace. Gylfa var kippt af velli stuttu fyrir leikslok stuttu eftir að Morgan Schneiderlin fékk rautt spjald.

Nýliðarnir í Sheffield United gerðu sér góða fer til Bournemouth og kræktu í stig með jöfnunarmarki Billy Sharp á 88. mínútu á sama tíma og Brighton vann öruggan 3-0 sigur á Watford í fyrsta leiknum undir stjórn Graham Potter.