Enski boltinn

Evrópuævintýri á Turf Moor

Jóhann Berg Guðmundsson hefur farið vaxandi með hverjum leik sem hann hefur spilað fyrir Burnley. Hann sprakk út á síðustu leiktíð og var iðinn við að leggja upp mörk fyrir liðsfélaga sína.

Jóhann Berg kom með beinum hætti að tíu mörkum á síðasta tímabili. Fréttablaðið/Getty

Jóhann Berg Guðmundsson er að hefja sitt þriðja keppnistímabil með Burnley, en hann átti mun betra tímabil í fyrra heldur en árið þar áður. Að sama skapi var árangur liðsins mun betri. Liðið tryggði sér sæti í Evrópudeildinni og er komið í þriðju umferð forkeppninnar þar sem það mætir tyrkneska liðinu Istanbul Basaksehir.

Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 1967 sem Burnley tekur þátt í Evrópukeppni og í þriðja skipti í sögu félagsins sem liðið kemst í einhverja af Evrópukeppnunum. Jóhann á sjálfur góðar minningar úr Evrópudeildinni en fyrsti leikur hans fyrir hollenska liðið AZ Alkmaar, sem var fyrsta erlenda liðið sem hann spilaði með, var í þeirri keppni. Hann setti strax mark sitt á liðið og skoraði í frumraun sinni fyrir liðið í leik gegn sænska liðinu Gautaborg.

Jóhann Berg glímdi við meiðsli drjúgan hluta af fyrstu leiktíð sinni með Burnley í ensku úrvalsdeildinni, en hann lék 20 leiki og skoraði eitt mark og lagði upp tvö. Hann var hins vegar svo til meiðslalaus á síðustu leiktíð, spilaði 35 deildarleiki og skoraði í þeim leikjum tvö mörk. Hans helsta framlag var aftur á móti stoðsendingar hans sem voru átta talsins þegar upp var staðið.

Hann var í mun stærra hlutverki hjá liðinu síðasta vetur, en spiltími hans jókst um það bil þrefalt og hann virtist vera með fyrstu mönnum á leikskýrsluna hjá Sean Dyche, knattspyrnustjóra liðsins.

Jóhann hefur ekki þurft að sitja sveittur við það að kynnast nýjum liðsfélögum eftir að hann kom til móts við liðið á nýjan leik eftir þátttöku sína með íslenska liðinu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar. Joe Hart var keyptur frá Manchester City til þess að leysa meiðslavandræði markvarðasveitar liðsins, enski varnarmaðurinn Ben Gibson, sem kom frá Middlesbrough, á að auka breiddina í varnarlínunni og tékkneski framherjinn Matej Vydra, sem gekk til liðs við félagið frá Derby County, á að auka möguleikana í sókinni.

Samkeppnin hvað kantstöðuna varðar hefur því ekkert breyst og líklegt að Jóhann verði áfram í lykilhlutverki hjá liðinu; leiki á hægri vængnum og haldi vonandi áfram að mata samherja sína á frábærum fyrirgjöfum. Burnley leikur þéttan varnarleik og treystir á skyndisóknir og föst leikatriði. Jóhann hefur bætt sig umtalsvert í varnarleik sínum og fellur eins og flís við rass við þann leikstíl sem einkennir Burnley undir stjórn Seans Dyche.

Þessi grein birtist í sérblaði um enska boltann sem fylgdi Fréttablaðinu í dag.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Enski boltinn

Özil stórkostlegur í sigri Arsenal á Newcastle

Enski boltinn

Jose Mourinho sleppur við kæru

Fótbolti

Sér alltaf nokkra leiki fram í tímann

Auglýsing

Nýjast

„Fann það strax að við gætum unnið saman“

Andri Rúnar og félagar fara upp með sigri í kvöld

„Þakklátur fyrir þetta tækifæri sem KSÍ veitir mér“

Valskonur söxuðu á forskot Fram á toppnum

Glódís og stöllur einum sigri frá meistaratitlinum

„Allt til staðar til að gera góða hluti saman næstu árin“

Auglýsing