Burnley er komið áfram í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar eftir 3-1 sigur á Aberdeen í framlengdum leik á Turf Moor í kvöld.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley og lék allan leikinn. Hann er á sínu þriðja tímabili hjá félaginu.

Fyrri leikurinn í Skotlandi fór 1-1 og sama staða var eftir venjulegan leiktíma í leiknum í kvöld. Chris Wood kom Burnley yfir strax á 6. mínútu en Lewis Ferguson jafnaði eftir tæplega hálftíma.

Í framlengingunni reyndist Burnley sterkari. Jack Cork kom heimamönnum í 2-1 á 102. mínútu og 12 mínútum síðar gulltryggði Ashley Barnes sigur þeirra með marki úr vítaspyrnu. Burnley vann leikinn 3-1 og einvígið 4-2 samanlagt.

Burnley, sem tekur þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn í 52 ár, mætir Istanbul Basaksehir í næstu umferð.