Jó­hann Berg Guðmunds­son, landsliðsmaður í knatt­spyrnu, og leikmaður enska úrvalsdeildarlðisins Burnley gæti verið í leikmannahópi liðsins þegar Burnley mætir Sheffield United í 33. umferð deildarinnar í hádeginu á morgun.

Ef af því verður yrði það í fyrsta skipti síðan um síðustu ára­mót sem Jóhann Berg væri í leikmannahópi Burnley. Jóhann Berg meiddist á kálfa í bikarleik með Burnley 4. janúar síðastliðinn og hefur ekki náð að jafna sig af þeim meiðslum almennilega.

„Jó­hann hef­ur æft af fullum krafti með liðinu í nokkurn tíma en við höfum ekki viljað taka áhættuna á því að meiðslin taki sig upp aftur með því að láta hann spila í undanförnum leikjum liðsins.Við höfum viljað gefa honum nægan tíma til þess að jafna sig algjörlega áður en hann spilar. Það er hins vegar fínn möguleiki á því að hann taki þátt í leikn­um að einhverju leyti um helgina," segir Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley um stöðu mála á meiðslunum hjá Jó­hanni Berg sem hef­ur einungis spilað sjö deildarleiki með liðinu á yfirstandandi leiktíð.

Burnley situr í 10. sæti deildarinnar með 42 stig en liðið hefur haft betur í síðustu tveimur leikjum sínum. Leikur Burnley og Sheffield United fer fram á Turf Moor, heimavelli Jóhanns Berg og félaga og hefst klukkan 11.00 að íslenskum tíma á morgun.