Jóhann Berg Guðmundsson, kantmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu og Burnley í ensku úrvalsdeildinni, verður ekki með liðinu í leikjunum framundan gegn Belgíu og Sviss í Þjóðadeildinni.

Staðfesti Sean Dyche, þjálfari Burnley þetta á blaðamannafundi liðsins fyrir leik gegn Olympiakos í Evrópudeildinni.

Jóhann Berg fór meiddur af velli á 19. mínútu í leik Burnley og Fulham um helgina eftir að meiðsli tóku sig upp aftan í læri. Mun hann missa af leiknum gegn Olympiacos og gegn Manchester United í deildinni hjá Burnley að minnsta kosti.

Þá er hann búinn að draga sig úr landsliðshópnum fyrir leikina gegn Sviss og Belgíu sem verða fyrstu leikirnir undir stjórn Eric Hamrén.

Skoraði hann eftirminnilega þrennu síðast þegar þessi lið mættust í Bern í 4-4 jafntefli eftir að Ísland lenti 0-4 undir í byrjun seinni hálfleiks.

Mun liðið því vera án að minnsta kosti þriggja leikmanna en Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson gátu ekki gefið kost á sér vegna meiðsla.