Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í fótbolta, hefur jafnað sig af Covid-smiti og þeim meiðslum sem hafa verið að hrjá hann undanfarið.

Jóhann Berg er þar af leiðandi klár í bátana þegar Burnley sækir Arsenal heim á Emirates í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta karla klukkan 14.00 í dag.

Burnley er fyrir leikinn með 11 stig eftir 17 leiki og situr á botni deildarinnar. Jóhann Berg og liðsfélagar hans eiga reyndar nokkra leiki inni þar sem síðustu leikjum liðsins hefur verið frestað vegna forfallar í liði Burnley.

Síðasti deildarleikur Burnley var tapleikur gegn Leeds United 2. janúar síðastliðinn. Burnley-mönnum er líklega farið að lengja eftir sigurleik í deildinni.

Liðið vann síðast deildarleik 30. október þegar Brentford mætti á Turf Moor. Síðan þá hefur Burnley gert fjögur jafntefli og tapað þremur.