Jákvæð tíðindi bárust úr herbúðum Burnley, enska úrvalsdeildarliðsins í knattspyrnu karla, í dag þegar greint var frá því að Jóhann Berg Guðmudsson væri farinn að æfa á ný með liðinu eftir að að tognað á liðbandi í hné í leik liðsins gegn Sheffield United í enska deildarbikrarnum á dögunum.

Fram undan eru tveir leikir hjá Burnley fram að landsleikjahléi en liðið mætir Manchester City í enska deildarbikarnum annað kvöld og svo Newcastle United í deildinni næstu helgi. Ekki er líklegt að Jóhann Berg verði með í leiknum gegn Manchester City en líklegra að hann verði í leikmannhópnm á móti Newcastle United.

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þjálfarar íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, munu tilkynna leikmannahóp sinn fyrir komandi verkefni liðsins á föstudaginn kemur. Það að Jóhann Berg sé farinn að æfa með liði sínu, Burnley, vekur von í brjósti um að hann verði klár í slaginn þegar Ísland fær Rúmeníu í heimsókn í umspili um laust sæti á EM 2021 8. október.

Kári Árnason sem fór meiddur af velli eftir að hafa tognað á nára í leik Víkings gegn HK á dögunum er einnig á góðum batavegi og verður vonandi leikfær þegar að leiknum gegn Rúmenum kemur.

Kolbeinn Sigþórsson sem meiddist í upphitun fyrir leik íslenska liðsins gegn Englandi í Þjóðadeildinni fyrr í þessum mánuði spilaði svo með AIK gegn Mjällby í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Mynd/Burnley