Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, segir að Jóhann Berg Guðmundsson verði frá næstu vikurnar sem þýðir að ekki er víst hvort að hann nái næstu leikjum Íslands.

Jóhann Berg fór meiddur af velli í fyrri hálfleik í leik Íslands og Frakklands á dögunum eftir að hafa meiðst aftan í læri.

Á blaðamannafundi Burnley í dag sagði Dyche að hann ætti von á því að Jóhann væri frá næstu vikurnar og varaði við því að það gæti verið langt í að Jóhann komi aftur við sögu.

Íslenski landsliðsmaðurinn byrjaði sinn fyrsta leik í sex vikur með Burnley fyrir landsleikjahlé en þarf nú að fylgjast með af hliðarlínunni á ný.

Þá er nánast öruggt að Jóhann missi af leikjum Íslands gegn Tyrklandi og Moldóvu í undankeppni EM í næsta mánuði.