Jóhann Berg Guðmundsson, Robbie Brady, Ashley Barnes og Chris Wood verða áfram fjarri góðu gamni hjá Burnley vegna meiðsla sinna þegar liðið heimsækir Crystal Palace í 32. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattpsynu karla á Selhurst Park í kvöld.

Þetta kemur fram í upphitun fyrir leikinn inni á heimasíðu Burnley.

Fyrir leikinn í kvöld eru liðin jöfn að stigum með 42 stig í 10. og 11. sæti deildarinnar en Crystal Palace er sæti ofar vegna hagstæðari markatölu. Burnley vann 1-0 sigur á móti Watford í síðustu umferð deildarinnar á meðan Crystal Palace lá fyrir Liverpool með fjórum mörkum gegn engu.

Jóhann Berg hefur einungis spilað sjö leiki með Burnley á yfirstandandi leiktíð en hann hefur skorað eitt mark í þessum sjö leikjum. Síðasti leikur hans með Burnley var á fyrsta degi þessa árs en hann hefur einungis leikið einn heilan leik á leiktíðinni. Það var í fyrstu umferð deildarinnar en þar skoraði Jóhann Berg eina deildarmarkið sitt í vetur.

Landsliðsmaðurinn æfir hins vegar af fullum krafti með liðinu og mun mögulega snúa til baka inn á völlinn áður en leiktíðinni lýkur.