Sean Dyche knattspyrnustjóri Burnley sagði á blaðamannfundi sem haldinn var í dag að Jóhann Berg Guðmundsson verði ekki með liðinu þegar það mætir Manchester City í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Turf Moor annað kvöld.

Jóhann Berg fór meiddur af velli þegar íslenska landsliðið laut í lægra haldi fyrir Frakklandi í undankeppni EM 2020 á Laugardalsvellinum um miðjan október síðastliðinn.

Síðasti leikur Jóhanns Berg með Burnley var á móti Everton nokkrum dögum áður en hann hefur einungis spilað fjóra leiki með liði sínu á yfirstandandi leiktíð.

„Jóhann Berg er að vinna hörðum höndum að því með sjúkraþjálfurum að ná upp fyrri styrk og snerpu," sagði Dyche á blaðamannafundinum. Eftir leikinn gegn Manchester City mætir Burnley Tottenham Hotspur á laugardaginn kemur en talið er líklegra að Jóhann Berg snúi til baka í leik liðsins við Newcastle United helgina þar á eftir.