Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson verður í hóp hjá Burnley um helgina eftir að hafa verið fjarverandi síðustu sex vikur vegna meiðsla.

Jóhann fór meiddur af velli í leik Burnley og Peterborough í enska bikarnum í byrjun ársins en þá var hann nýkominn aftur inn á völlinn á nýjan leik.

Kantmaðurinn hefur aðeins komið við sögu í átta leikjum í öllum keppnum með Burnley á þessu tímabili eftir að hafa meiðst tvisvar með Burnley og í leik með íslenska landsliðinu.

Burnley tekur á móti Bournemouth um helgina en liðsfélagar Jóhanns hafa leikið vel að undanförnu og eru komnir í baráttuna um Evrópusæti.