Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist búast við því að Joe Gomez verði orðinn klár í slaginn þegar liðið mætir Arsenal í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla sem fram fer á Anfield á mánudaginn kemur.

Gomez og Joël Matip voru báðir fjarri góðu gamni vegna meiðsla þegar Liverpool lagði Chelsea að velli með tveimur mörkum gegn engu í annarri umferð deildarinnar í gær. Klopp segir að tvær til þrjár vikur séu í endurkomu Matip.

Klopp stillti Fabinho upp í miðvarðarstöðunni við hlið Virgil van Dijk í sigrinum gegn Chelsea en Klopp var sáttur við frammistöðu Brasilíumannsins í leiknum. „Sem betur fer getur Fabin­ho leyst miðvarðarstöðuna af hólmi og hann var frábær í þessum leik. Við vonumst hins vegar til þess að Gomez verði klár í leiknum gegn Arsena og Matip verði búinn að jafna sig eftir næsta landsleikjahlé," segir Klopp í samtali við heimasíðu Liverpool.

Næsti leikur Liverpool er á móti Lincoln City í enska deildarbikarnum en Gomez og Matip verða ekki með í þeim leik. Klopp er vanur því að leyfa yngri leikmönnum liðsins og þeim sem spila ekki reglulega tækifæri í leikjum í þeirri keppni.