Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe vill kaupa knattspyrnuliðið Manchester United af Glazer fjölskyldunni. Hann vill fyrst um sinn kaupa lítinn part af félaginu en hafi Glazer fjölskyldan áhuga á því að selja meirihluta í félaginu hefði hann einnig áhuga á því.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá talsmanni Ratcliffe sem ræddi við The Times í Bretlandi. Ratcliffe er talinn einn ríkasti maður Bretlands og ætti því ekki erfitt með að reyða fram hvaða verð sem Glazer fjölskyldan setur upp, hafi þau áhuga á að selja.

Jim Ratcliffe ættu flestir Íslendingar að þekkja en hann var mikið í fréttum hér á landi eftir að hafa fest kaup á jörðum og veiði­réttindum á Norð­austur­landi. Jarðir sem Ratclif­fe á hlut í þekja ríf­lega 100 þúsund hektara sem eru um 1 prósent af öllu land­svæði Ís­lands.

„Ef félagið er til sölu er Jim einn af þeim sem gætu viljað kaupa. Þetta væri með langtíma eignarhald í huga“ sagði talsmaður Ratcliffe.

Upphaf leiktíðarinnar hjá Mancester United hefur ekki verið neinn dans á rósum en liðið tapaði núna síðast 4-0 á móti Brentford í síðustu umferð enska boltans.

Næsti leikur liðsins verður ekki auðveldari en það mun spila á móti Liverpool mánudaginn 22. Ágúst.

Stuðningsmenn Manchester United hafa boðað til mótmæla gegn ástandi liðsins og núverandi eigendum þess og því eflaust margir sem taka því fagnandi að Ratcliffe hafi áhuga á kaupunum en Ratcliffe hefur lengi verið stuðningsmaður liðsins.