„Þetta var mjög heilsteypt frammistaða og við vorum mjög þéttir til baka í þessum leik. Mér fannst þeir skapa lítið fyrir utan markið sem þeir skora og við fengum færi til þess að bæta við mörkum. Við verðkulduðum þennan sigur," sagði Jóhann Berg í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn.

„Gylfi var búinn að taka aukaspyrnu á svipuðum stað fyrr í leiknum. Okkur fannst línan þeirra vera svo hátt uppi þannig að það myndi henta betur að snúa boltann inn að marki. Sem betur fer náði ég að finna Ragnar sem skilaði boltanum glæsilega í netið," sagði kantmaðurinn um markið sem hann lagði upp.

„Kálfinn hefur alveg verið betri og ég náði bara tveimur æfingum á meðan ég var hérna í þessum verkefnum. Ég bjóst ekki við því að ég myndi ná að spila jafn mikið og ég gerði í þessum tveimur leikjum," sagði hann um stöðuna á meiðslunm sem eru að angra hann.

„Ég var gjörsamlega búinn á því áður en mér var skipt út af. Ég var hins vegar bara þakklátur að ná að hanga svona lengi inná. Nú tekur við kærkomið frí þar sem ég fæ tíma til þess að tjasla mér saman," sagði Jóhann um framhaldið hjá sér.