Ian Jeffs og Andri Ólafsson munu þjálfa karlalið ÍBV í knattspyrnu út yfirstandandi keppnistímabil en þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins í kvöld.

Pedro Hipólito var sagt upp störfum sem þjálfara liðsins á dögunum en Jeffs sem var aðstoðarmaður hans tók tímabundið við starfinu og hann og Andri stýrðu Eyjaliðinu í tapinu gegn KR í síðustu umferð deildarinnar.

Andri sem lék líkt og Jeffs með ÍBV lagði skóna á hilluna haustið 2017 og var í kjölfarið ráðinn í þjálfarateymi Kristjáns Guðmundssonar hjá liðinu.

Verkefni Jeffs og Andra við að bjarga liðinu frá falli er ansi strembið en ÍBV vermir botnsæti deildarinnar með fimm stig og er sex stigum frá öruggu sæti í efstu deild á næstu leiktíð.