Þeir Sigeru Hikawa og Kenya Kasahara, leggja ekki bara sitt af mörkum innan vallar, handboltaliðinu Herði og vestfirsku samfélagi til heilla.

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, kennari við Grunnskólann á Ísafirði, segir hugmyndina um valáfanga, sem fjallar um japanska menningu, koma frá nemendunum sjálfum.

,,Þetta var hugmynd frá nemendum í skólanum sem langaði að læra að teikna svona anime teiknimyndasögur, svo voru nokkrir sem vildu læra japönsku. Ég ákvað bara að sjóða þetta saman í japanskan menningarbræðing. Nemendurnir eru að teikna, læra orðaforða, búa til sushi og fleira," sagði Ólöf Dómhildur í Landanum sem sýndur var á RÚV á dögunum.

Valáfanginn samanstendur af nemendum í 8. - 10. bekk frá Ísafirði og Suðureyri. ,,Þetta gengur vel, þau eru mjög dugleg að læra og leggja sig fram," sagði Ólöf Dómhildur kennari við Grunnskólann á Ísafirði.

Línumaðurinn Kenya Kasahara spilar einnig með japanska landslðinu í handbolta og var hluti af liðinu sem tók þátt á Ólympíuleikunum sem fór einmitt fram í Japan síðastliðið sumar.

Harðverjar spila í næst efstu deild hér á Íslandi en setja stefnuna á sæti í Olís deildinni á næsta ári. Liðið situr í efsta sæti næst efstu deildar með 14 stig þegar að sjö umferðir hafa verið leiknar.