Janus Daði Smárason og Ólafur Andrés Guðmundsson eru búnir að standast kröfur mótshaldara um neikvæð kórónaveirusýni og einangrunartíma og geta því komið aftur inn í leikmannahóp Íslands fyrir leikinn gegn Noregi í dag.

Þetta kom fram í pósti frá HSÍ rétt í þessu. Þeir geta því tekið þátt í leik Íslands gegn Noregi á eftir upp á fimmta sæti mótsins. Um leið veitir fimmta sætið þátttökurétt í lokakeppni HM á næsta ári.

Ólafur var meðal þeirra fyrstu sem greindust með Covid-19 í íslenska hópnum ásamt Björgvini Páli Gústavssyni og Elvari Erni Jónssyni.

Janus Daði greindist með kórónaveirusmit stuttu fyrir leikinn gegn Frökkum í milliriðlinum.