Íslensku landsliðsmennirnir í handbolta, Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson, voru tveir af þeim sex leikmönnum sem kynntir voru til leiks hjá hinu rísandi stórveldi Kolstad á blaðamannafundi í dag.

Kolstad ætlar sér stóra hluti í evrópskum handbolta næstu árin en fram kom á blaðamannafundinum í dag að stefnan væri að liðið voru orðið besta lið Noregs árið 2024 og á sama tíma er stefnt að því að Þrándheimarliðið geri sig gildandi í Meistaradeild Evrópu.

Auk Janusar Daða og Sigvalda Björns, sem koma frá Göppingu og Vive Kielce næsta sumar, voru Sander Sagosen, Kiel, Magnus Abelvik Rød, Flensburg, Torbjørn Bergerud, GOG Håndbold, Magnus Gullerud, Magdeburg, staðfestir sem verðandi leikmenn Kolstad.

Bergerud og Gullerud mæta til leiks með Janusi Daða og Sigvaldi Birni næsta sumar en Sagosen og Rød koma til Þrándheims sumarið 2023.