Janus Daði Smárason skrifaði í gær undir samning við Göppingen um að ganga til liðs við þýska félagið næsta sumar.

Samningur Janusar hjá Álaborg í Danmörku rennur út eftir tímabilið og mun Selfyssingurinn ganga til liðs við Göppingen fyrir næsta tímabil.

Eftir að hafa slegið í gegn með Haukum á Íslandi samdi Janus við Álaborg árið 2017 og var einn besti leikmaður liðsins í fyrra þegar liðið vann tvöfalt heimafyrir.

Janus heimsótti Göppingen í síðasta mánuði til að ræða möguleg vistaskipti og skrifaði í gær undir tveggja ára samning eftir að hafa gengist undir læknisskoðun.

Selfyssingurinn hefur farið á tvö stórmót með íslenska landsliðinu en var ekki í hóp Guðmunds Guðmundssonar á HM fyrr á þessu ári.