Vegna meiðsla hefur Janus Daði Smárason ákveðið að draga sig úr íslenska karlalandsliðinu í handbolta sem leikur á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi þessa dagana.

Janus Daði hefur átt við meiðsli að stríða í öxl að undanförnu og ágerðust meiðslin í Kaíró.

Í samráði við Guðmund Þórð Guðmundsson, landsliðsþjálfara og sjúkrateymi landsliðsins hefur Janus því ákveðið að draga sig úr hópnum og heldur hann til síns heima á þriðjudaginn.

Næsti leikur íslenska liðsins á mótinu er gegn Marokkó í lokaumferð riðlakeppninnar. Jafntefli eða sigur í þeim leik fleytir Íslandi í milliriðil mótsins.