Körfuboltakappinn Martin Hermannsson horfir björtum augum á næstu mánuði, þrátt fyrir að vera frá vegna krossbandsslita út árið hið minnsta.

Martin sleit krossband í leik með félagsliði sínu, Valencia, gegn Baskonia í oddaleik liðanna í 8-liða úrslitum spænsku deildarinnar í lok maí. Hann hefur verið besti körfuboltamaður Íslands undanfarin ár. Því var um mikið áfall að ræða fyrir íslenska landsliðið og Valencia.

„Auðvitað eru það alltaf vonbrigði. Þú sérð þetta aldrei fyrir og þetta er eitthvað sem þú ætlar aldrei að lenda í,“ segir Martin um meiðslin við hlaðvarpsþáttinn Chess After Dark.

Hann hefur þó haldið jákvæðninni á lofti. „Þetta eru vonbrigði. Þetta er á þeim tímapunkti sem maður á að vera að toppa sjálfan sig. En aftur á móti hef ég aldrei dottið í það að draga mig of mikið niður. Þetta er bara nýtt verkefni, stórt tækifæri til að vinna í sjálfum mér, í líkamanum. Nú getur maður nýtt tækifærið og byggt sig upp á nýtt, bætt nokkrum trixum í pokann og komið til baka tvíelfdur.“

Martin segir að fólkið sem er náið honum hafi tekið meiðslunum verr en hann sjálfur. „Það var mjög fyndið, allir í kringum mig tóku þetta meira inn á sig en ég. Mér fannst meiri vonbrigði að geta ekki spilað golf í sumar en að vera ekki að fara inn á körfuboltavöllinn í ágúst.“

Martin viðurkennir þó að hann væri til í að hjálpa íslenska landsliðinu í þeirri baráttu sem það er í um að komast á lokakeppni Heimsmeistaramótsins.

„Það er risastórt tækifæri fyrir okkur að fara á HM. Það er kannski það versta við þetta. Ég veit ég kem alltaf til baka í atvinnumennskuna, en nú er tækifærið til að gera eitthvað stórkostlegt með landsliðinu. Það er rosalega erfitt að sitja á hliðarlínunni þar og fá ekki að taka þátt í því,“ segir Martin Hermannsson, körfuboltakappi.