Jakob Sigurðarson fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta hefur leikið sinn síðasta leik fyrir sænska liðið Borås Basket en sá leikur var tap gegn Södertalje Kings í úrslitum um sænska meistaratitilinn.

Jakob var kvaddur með fallegri kveðju á twitter-síðu félagsins en hann hyggst flytja til Íslands á næstunni eftir að hafa leikið í tíu ár í Svíþjóð fyrst með Sundsvall Dragons og svo Borås Basket.

Hann varð meistari með Sundsvall Dragons árið 2011 en náði hins vegar ekki að tryggja sér titilinn í búningi Borås Basket.

Ljóst er að félög á Íslandi munu setja sig í samband við Jakob með það fyrir augum að tryggja sér krafta hans í Domino's-deildinni á næsta kepppnistímabili.

Jakob er uppalinn KR-ingur en hann varð Íslandsmeistari með Vesturbæjarliðinu árin 2000 og 2009.

Þá leikur bróðir hans Matthías Orri Sigurðarson með ÍR og spurning hvort hann vilji klára ferilinn sem samherji hans.