Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í knattspyrnu mæta Svíum í dag í leik sem fer langt með að úrskurða hvort liðið tekur toppsæti riðilsins og með því farseðil á næsta Evrópumót. Fyrir toppslaginn í undankeppni EM 2022 eru Svíar á toppi riðilsins með 16 stig eftir sex leiki á meðan Ísland er sæti neðar með 13 stig eftir að hafa spilað fimm leiki. Liðin mættust í fyrri leik sínum í undankeppninni á Laugardalsvellinum í lok september og lyktaði þeim leik með 1-1 jafntefli þar sem Elín Metta Jensen skoraði mark íslenska liðsins eftir langt innkast hjá Sveindísi Jane Jónsdóttur.

Þjálfari sænska liðsins sem og leikmenn þess sem ræddu við fjölmiðla eftir leikinn viðurkenndu það að sú ógn sem stafaði af Sveindísi Jane bæði í opnum leik og þegar hún grýtir boltanum inn á vítateig andstæðinganna hafi komið þeim á óvart. Sænska liðið verður líklega betur undirbúið hvað það varðar að halda Sveindísi Jane í skefjum en í fyrri leiknum.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska landsliðsins, sem leikur með sænska liðinu Djurgården, segir Svía telja sig sigurstranglega í leiknum í kvöld en fyrri leikurinn hafi hins vegar lækkað aðeins í þeim rostann að hennar mati. Guðbjörg býst við öðrum frábærum leik milli tveggja góðra liða.

„Ég held að Svíar byrji með svipað lið og hóf leikinn á Laugardalsvellinum. Hins vegar hef ég á tilfinningunni að Jennifer Falck muni leysa Zećiru Mušović af í markinu og Hanna Glas komi inn í hægri bakvörðinn. Þetta eru breytingar sem bæta liðið að mínu mati. Svo hafa verið einhverjar fréttir um að Kosovare Asllani og Lina Hurtig séu tæpar vegna meiðsla þannig að það gætu orðið breytingar í kantstöðunni ef þær verður ekki með,“ segir Guðbjörg um sænska liðið.

Ljóst er að það er stórt skarð að fylla í liði Íslands í kvöld. Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður Selfoss, er fjarverandi vegna meiðsla en hún hefur skorað fimm mörk í undankeppninni.

„Hvað íslenska liðið varðar þá býst ég ekki við öðrum breytingum á byrjunarliðinu en þarf að gera vegna meiðslanna hjá Dagnýju [Brynjarsdóttur]. Mér finnst líklegt að Jón Þór [Hauksson, þjálfari íslenska liðsins] færi Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur inn á miðsvæðið og geri tilfærslur í varnarlínunni til þess að fylla skarð Gunnhildar Yrsu í hægri bakverðinum.

Mér fannst nú hálf fyndið að lesa að sænska liðið hefði ekki þekkt Sveindísi Jane og þær hefðu haldið að ógnin úr innköstum hefði horfið af því að Sif [Atladóttir] væri í barneignarleyfi. Þetta er eitthvað sem A-landsliðið okkar og yngri landsliðin hafa verið þekkt fyrir lengi. Svo fannst mér líka spes að sjá þá leikgreiningu að íslenska liðið bara ógnað með þessum innköstum og liðið hafi spilað leiðinlegan fótbolta. Það var ekki mín upplifun af leiknum. Auk þess sé ég bara ekkert að því að nýta styrkleika sína í föstum leikatriðum,“ segir hún um íslenska liðið.

„Leikmenn íslenska liðsins spiluðu mjög vel í fyrri leiknum og upplegg þjálfaranna gekk vel upp. Því finnst mér ekki þörf á því að breyta til hvað byrjunarlið umfram það sem þarf og uppleggið verður líklega það sama. Vera þolinmóðar í varnarleiknum þegar það á við en svo sáum við í seinni hálfleik að við getum vel pressað og sótt stíft þegar svo ber undir. Það er svo frábært að Hólmfríður [Magnúsdóttir] sé kominn inn í hópinn. Þar er bæði bunki af reynslu og mikil gæði sem henta í svona stórleik. Hólmfríður er þeim hæfileika gædd að henni er nákvæmlega sama á móti hverju hún er að spila og pressa nær ekki mikið inn fyrir skinnið á henni. Hún gæti reynst gott leynivopn af bekknum,“ segir markvörðurinn um líklegt upplegg Íslands í leiknum.