Ólympíuleikarnir árið 2024 verða haldnir í París og þar er stefnt að því að hafa jafn marga karl­kyns og kven­kyns kepp­endur í fyrsta sinn í sögu leikanna.

Karl­kyns þátt­tak­endur hafa lengi verið í meiri­hluta á Ólympíu­leikunum en sam­kvæmt heima­síðu leikanna kepptu konur fyrst árið 1900 í París, þá 22 konur af 997 kepp­endum. Þær máttu ekki taka þátt í fyrstu leikjunum árið 1896.

Árið 1952 voru konur í fyrsta sinn meira en tíu prósent af þátt­tak­endum. Frá árinu 1991 þurftu allar nýjar í­þróttir sem keppt er í á Ólympíu­leikunum að hafa keppnir fyrir bæði konur og karla, segir í frétt frá The Economist.

Hér má sjá hlutfall karla og kvenna af þátttakendum á Ólympíuleikunum.
Skjáskot/The Economist

Á leikjunum í Lundúnum árið 2012 voru í fyrsta sinn konur í öllum í­þróttum. Í leikunum í Ríó árið 2016 voru 45 prósent allra þátt­tak­enda konur. Í Tokýó í ár eru þær tæp 49 prósent auk þess sem fyrsta trans­konan og fyrsta kyn­segin manneskjan tóku þátt.

Þó eru enn nokkrar keppnis­greinar sem eru að­eins fyrir karla eða að­eins fyrir konur, líka í París 2024. Í fim­leikum eru að­eins karlar sem keppa í boga­hesti, hringjum og þver­slá en að­eins konur sem keppa í jafn­vægis­slá.

Þá mega að­eins karlar keppa í Grísk-Róm­verskri glímu og að­eins konur mega keppa í list­rænu sundi og rytmískum fim­leikum.