Manchester City og Tottenham Hotspur skildu jöfn 2-2 í lokaleik dagsins í annarri umferð í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á Etihad-leikvanginum í Manchester síðdegis í dag.

Það voru Raheem Sterling Sergio Agüero sem skoruðu mörk Manchester City í leiknum en heimamenn komust tvívegis yfir í leiknum. Kevin de Bruyne lagði upp bæði mörk Manchester City í leiknum.

Érik Lamela og Lucas Moura sáu hins vegar til þess að Tottenham Hotspur tók eitt stig með sér til Lundúna.Tanguy NDombèlé átti stoðsendinguna í fyrra marki Tottenham Hotspur og það var svo hornspyrna Lamela sem skóp seinna markið.

Gabriel Jesúes sem kom inná sem varamaður fyrir Agüero skoraði mark í uppbótartíma leiksins sem var svo dæmt af eftir myndbandsdómgæslu þar sem Aymeric Laporte handlék boltann í aðdraganda þess að boltinn hrökk fyrir Jesús og hann setti boltann í netið.

Liðin hafa hvort um sig fjögur stig eftir tvær umferðir líkt og Brighton, Bournemouth en Liverpool og Arsenal tróna á toppnum með fullt hús stiga.

Umferðin heldur áfram á morgun með leikjum Sheffield United og Crystal Palace annars vegar og Chelsea og Leicester City hins vegar. Umferðinni lýkur svo með leik Wolves og Manchester United sem fram fer á mánudagskvöldið.