HK/Víkingur og Keflavík sættust á eitt stig hvort lið þegar liðin leiddu saman hesta sína í tíundu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu á Víkingsvöllinn í dag.

Tyrkneski sóknartengiliðurinn Fatma Kara kom HK/Víkingi yfir eftir tæplega klukkutíma leik. Rakel Logadóttir og Lára Hafliðadóttir sem tóku við liðinu af Þórhalli Víkingssyni fyrir síðustu umferð deildarinnar voru þarna að næla ser í sitt fyrsta stig.

Bandaríski sóknarmaðurinn Sophie McMahon Groff sá til þess að Keflavík færi með eitt stig af hólmi með marki sínu undir lok leiksins. Þetta var sjötta markið sem Groff skorar fyrir Keflavík í sumar

Keflavík er í fimmta sæti deildarinnar með tíu stig líkt og KR og Stjarnan en HK/Víkingur og Fylkir eru hins vegar í fallsætunum tveimur með sjö stig hvort lið.