Þrír leikir fóru fram í Olís-deild karla í kvöld þar sem FH mistókst að komast yfir Val og Selfoss í bili á sama degi og Akureyri vann fyrsta leik sinn undir stjórn Geirs Sveinssonar og Stjarnan vann fallslag gegn Fram.

FH gat með sigri jafnað Selfoss að stigum og komist upp fyrir Val sem leika á morgun í baráttunni um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

Þetta var fyrsti leikur FH-inga eftir bikarmeistaratitilinn á dögunum og voru Mosfellingar sterkari aðilinn lengi vel en FH þó aldrei langt undan. Á lokakaflanum skiptust liðin á mörkum og lauk leiknum með 22-22 jafntefli.

Á Akureyri unnu heimamenn loksins leik undir stjórn Geirs eftir fjóra ósigra í röð en Akureyri er enn í fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir.

Þetta var sannkallaður fallslagur þar sem botnlið Gróttu var mætt í heimsókn og náði Akureyri snemma góðu forskoti. Gróttu tókst að saxa á undir lokin en ekki gafst tími til að jafna metin.

Þá náði Stjarnan að aðskilja sig frá fallbaráttunni í bili með öruggum sigri á Fram í Safamýrinni en með sigrinum eru Garðbæingar komnir með fimm stiga forskot á Akureyri í ellefta sæti.

Framarar voru búnir að vinna tvo leiki í röð en byrjuðu illa og voru allan leikinn að eltast við Stjörnuna í dag.