Fram kom í máli Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að í reglugerð um sóttvarnir vegna kórónaveirufaraldursins sem hún mun setja og tekur gildi á miðnætti verði lagt bann við allri íþróttastarfsemi næstu tvær til þrjár vikurnar.

Þannig er tveggja metra reglan innleidd um allt land fyrir alla landsmenn fædda 2015 eða fyrr og allar æfingar og keppnir íþróttamanna óheimilar næstu vikurnar.

Þetta leiðir til þess að öllum leikjum og mótahaldi sem fyrirhugað var hérlendis verður frestað en ekki er vitað hvað verður um alþjóðleg verkefni félags- og landsliða sem á dagskrá eru næstu vikurnar. Fram kemur hins vegar í reglugerðinni að ráðherra geti veitt undanþágu fyrir einstaka íþróttaviðburð svo sem alþjóðlega keppnisleiki.

Nú þegar hafa leikir Vals og HJK Helsinki í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu kvenna og landsleikur Íslands og Litháen í handbolta karla sem fram eiga að fara í næstu vikur fengið undanþágu frá sóttvarnarreglum og líklegt verður að telja að sú undanþága verði áfram í gildi.

Þessar reglur gera knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ, erfitt um vik að ljúka mótahaldi sínu fyrir 1. desember eins og stefnt er að í reglugerð sambandsins sem sett var vegna kórónaveirufaraldursins.

Hertar aðgerðir í sóttvörnum sem taka munu gildi á miðnætti munu gilda fram til 17. nóvember næstkoamdni. Aðgerðirnar byggja á tilmælum sóttvarnalæknis, eins og fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðherra frá því í dag.

Íþróttir, þar með talið æfingar og keppni, barna og fullorðinna, hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar, eru óheimilar.  Einstaklingsbundnar æfingar, án snertingar, eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing. Sundlaugar verða jafnframt lokaðar á sama tímabili.