Íþróttastarf ungmenna fædd 2004 og fyrr hefst á ný á mánudag, 26 október, með ákveðnum skilyrðum.

Íþróttastarfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða starfsemin krefst mikillar nálægðar eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér er óheimil.

„Það er ekki gert á milli íþróttagreina, bara allir þeir sem starfa á vegum ÍSÍ og geta úfært sína starfsemi í takt við sóttvarnarreglur geta hafið æfingar. Allir sjá einhverja tímabundna lausn á sínum æfingum sem uppfylla þessi skilyrði. Það er ekkert hægt að gefa á milli í körfubolta og handbolta. Þetta er svolítið sérstakt,“ segir Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Fréttablaðið.

Gæta skal vel að  nálægðartakmörkum, fjöldatakmörkum, sótthreinsun og almennum persónubundnum sóttvörnum. 

„Þetta er sömu kröfur og við gerðum með ræktina. Þetta er bráðabirgðaákvæði sem gildir til 3. nóvember en reglugerðin sjálf gildir til 10. nóvember. Svo sjáum við hvað verður með nýja reglugerð, það þarf annað hvort að endurnýja þetta bráðabirðgaákvæði fyrir þriðja nóvember eða slaka eða herða. Maður vonar að það verði slakað því það hefur gengið vel fram að þessu með smitin,“ segir Jón Viðar.

„Vonandi getum við haldið svona áfram og vonandi munu þessi litlu skref hjálpa.“

Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins.
Fréttablaðið/Valli

Fulltrúar almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðsisin funduðu í dag með fulltrúum ÍSÍ og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og eftir ítarlega yfirferð yfir stöðuna var tekin ákvörðun um að hefja íþróttastarf á ný.

„Þessar ákvarðanir eru teknar í ljósi þess að höfuðborgarsvæðið er á viðkvæmum tíma í faraldrinum og næstu dagar eru mikilvægt að fara varlega sem aldrei fyrr til að við náum tökum á þessari bylgju svo hægt verði aftur að draga úr sóttvarnarráðstöfunum í stað þess að framlengja núverandi aðgerðir eða jafnvel herða frekar á þeim ef við missum tökin,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum.

Stefnt er að því að íþróttastarf barna og ungmenna fæddum 2005 og síðar geti hafist 3. nóvember næstkomandi  á höfuðborgarsvæðinu.

Næsta vika fer í áframhaldandi vinnu við aðlögun þessa starfs miðað við núgildandi reglur.

„Það er fagnaðarefni að unnt sé að hefja æfingar hjá iðkendum fæddum 2004 og fyrr í íþróttamannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu, þó með takmörkunum sé. ÍSÍ vill árétta að mjög mikilvægt er að íþróttahreyfingin fari að sóttvarnarreglum sérsambandanna sem ætlað er að sporna við útbreiðslu veirunnar. Rétt er að hafa í huga að útbreiðsla veirunnar er í miklum vexti í löndunum allt í kringum okkur,“ segir í tilkynningu frá ÍSÍ.