Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis að leyfa bæði íþróttastarf barna og fullorðinna og sömuleiðis íþróttakeppnir án áhorfenda.

Þetta var kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Breytingarnar taka gildi 13. janúar og gilda til 17. febrúar næstkomandi. Þar segir eftirfarandi um fyrirkomulag íþróttastarfs.

  • Íþróttaæfingar: Íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilar með og án snertingar innan- og utandyra. Ekki mega vera fleiri en 50 manns í rými. 
  • Íþróttakeppnir: Íþróttakeppnir barna og fullorðinna verða heimilar en án áhorfenda.

Keppni í vetrargreinum fer þar af leiðandi af stað á nýjan leik í næstu viku en hlé hefur verið gert á mótahaldi í þeim greinum frá því í byrjun nóvember á síðasta ári.

Þá muni sérsambönd setja á dagskrá mót sem óvissa hefur verið um hvenær geti farið fram vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins.