Samtök íþróttafréttamanna, standa að kjörinu og Einar Örn segir valið hafa verið sérlega erfitt í ár.,,Ef maður er diplómatískur getur maður sagt að öll þau sem hafi verið í efstu þremur sætunum, kannski aðallega Ómar Ingi og Kolbrún Þöll, hafi verið vel að þessu komin."

Hann segir valið þá hafa verið óvenju tæpt að þessu sinni. ,,Þetta hefur verið meira afgerandi undanfarin ár. En jújú verðskuldað hjá Ómari Inga, hann var markakóngur í Þýskalandi og var besti leikmaðurinn í besta liðinu í bestu deildinni."

Afrekin hjá Ómari dreifast jafnt yfir árið 2021. ,,Hann vinnur Evrópudeildina, verður markakóngur í Þýskalandi, heimsmeistari félagsliða í haust og hefur spilað frábærlega núna í vetur. Þannig að frá 1. janúar 2021 til 31. desember hefur hann átt mjög gott og jafnt ár," sagði Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður RÚV um valið á Íþróttamanni ársins.

Býr ekki yfir stjörnuljómanum

Hörður Snævar, blaðamaður, tók í svipaðan streng og Einar. Hann sagði Ómar vel að þessu kominn. ,,Ég hélt fyrirfram, hafandi setið fund með samtökunum þar sem þessi mál voru rædd, að Kolbrún Þöll, fimleikakona, myndi hafa þetta. Ég taldi að hún myndi annað hvort vera í fyrsta eða öðru sæti hjá flestum en Ómar Ingi átti mjög gott ár."

Hann segir það kannski hafa komið mörgum á óvart að Ómar skyldi poppa upp sem Íþróttamaður ársins. ,,Hann er kannski ekki alveg orðinn stjarna hérna heima per sei. Handboltalandsliðið hefur verið í dýfu á meðan að hann kemur upp og þar af leiðandi hefur hann ekki fengið þennan stjörnuljóma eins og Aron Pálmarsson hefur verið með þegar hann hefur var til dæmis valinn íþróttamaður ársins, það er að segja verið lands- og þjóðþekktur."

Ómar hefur farið á kostum með þýska liðinu Magdeburg
GettyImages

Var frá í heilt ár

Ómar Ingi hefur á sínum ferli komist yfir erfið meiðsli og unnið þannig úr sínum málum að hann hefur skarað fram úr að undanförnu.

,,Hann er frá í heilt ár og rúmlega það vegna höfuðhöggs sem hann hlýtur. Þetta var feiknalegt högg sem hann fékk á sínum tíma úti í Danmörku. Hann spilaði ekki neitt, nánast í heilt ár á eftir en samdi samt við Magdeburg á þessum tíma, þeir höfðu samt þessa trú á honum en hann missir af stórmóti hjá landsliðinu á þessum tíma og kemur nánast fullskapaður frá þessu ári þrátt fyrir að hafa misst úr heilt ár á frekar mikilvægu ári í þróun ungs leikmanns," sagði Einar Örn í Íþróttavikunni með Benna Bó.

Einar Örn segir það ljóst að meiðslin hafi bara engan veginn hafa háð honum. ,,Hann kemur bara sterkari inn ef eitthvað er. Hann skorar þessi ógrynni af mörkum en leggur líka upp annað eins af mörkum. Hann var markahæstur í Þýskalandi og í þriðja sæti yfir stoðsendingahæstu leikmennina í fyrra," sagði Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður RÚV í Íþróttavikunni með Benna Bó.