Með tilkomu þjóðarhallar skapast skilyrði til að félögin í Laugardalnum fengju Laugardalshöllina fyrir sig, þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur í umræðuþræði í Facebook hópnum Laugarneshverfi en mikil umræða um íþróttaaðstöðu í dalnum skapaðist á dögunum.

Íbúar í Laugardalnum eru orðnir þreyttir á aðstöðuleysi og samkvæmt þeim sárvantar íþróttahús í dalinn. Það vandamál verður úr sögunni með byggingu nýrrar þjóðarhallar að sögn Dags en ríki og Reykjavíkurborg skrifuðu undir viljayfirlýsingu um byggingu nýrrar þjóðarhallar í síðustu viku. Áætlað er að ný þjóðarhöll gæti verði tilbúin til notkunar árið 2025.

,,Ég átta mig á því eftir samtal við fjölmarga í Laugardal reynsla síðustu ára af samnýtingu í Laugardalshöll er ekki eitthvað sem félögin í dalnum eða íbúar í Laugardal hafa trú á,“ skrifar Dagur B við umræðuþráð í Facebook hópi Laugarneshverfis. ,,Með tilkomu þjóðarhallar skapast skilyrði til að félögin hefðu Laugardalshöll fyrir sig. Og þannig höfum við lagt þetta upp gagnvart félögunum. Þau fái Laugardalshöll - og til viðbótar þá tíma sem þarf í þjóðarhöllinni.“

Tryggi framúrskarandi aðstöðu

Dagur segir Reykjavíkurborg viðbúna því að gera þurfi einhverjar breytingar á Laugardalshöllinni til þess að laga hana að þörfum íþróttafélagana en höllinn sjálf hefur undanfarið gengist undir miklar endurbætur.

,,Segja má að núverandi gólfflötur Laugardalshallar séu einsog tveir full-stórir æfingavellir. Í þjóðarhöllinn við hliðna á verða fjórir vellir (full stórir handbolta/körfuboltavellir) til viðbótar. Þess vegna hafa sannfærandi rök verið færð að því að Laugardalshöllinn - með viðbótaraðstöðu eins og þarf í þjóðarhöll - tryggir framúrskarandi aðstæður til æfinga fyrir börn og unglinga í Laugardal. Um þetta fjallaði ég meðal annars í samtölum við Þrótt og Ármann á þessu vori og á opna íbúafundinum í Laugarnesskóla.“

Dagur segir einnig að Reykjavíkurborg hefði farið í byggingu sérstaks íþrótahúss fyrir Laugardalinn ef viðræður um byggingu nýrrar þjóðarhallar hefðu dregist á langinn.

,,Ég á von á að eiga gott samstarf við félögin í öllum næstu skrefum til að ná þeim markmiðum sem borgin og þau eiga sameiginleg. Órofin æfingaaðstaða félaganna, og fyrsta flokks umgjörð og aðstaða í Laugardalshöll og þjóðarhöll.

Hugmynd um mögulega staðsetningu nýrrar þjóðarhallar var kynnt fyrr á árinu. Fyrstu tillögur gera ráð fyrir því að höllin verði við Laugardalshöll og frjálsíþróttahöll, í brekkunni upp að Suðurlandsbraut.

,,Hugsunin er sú að tengja þannig anddyri hallarinnar við stoppistöð Borgarlínu. Landhallinn yrði nýttur þannig að gengið væri inn frá Suðurlandsbraut "ofarlega í húsinu" en einnig væri hægt að ganga inn á móts við/sunnan Laugardalshallar. Þannig myndi húsið vera nokkurs konar anddyri inn í dalinn,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur

Stefnan sé brött

Dagur segir að það sé mjög brött yfirlýsing af hálfu ríkis og borgar að setja það fram að framkvæmdum við nýja þjóðarhöll verði lokið árið 2025.

,,Stefnan hefur verið sett á að það verði 2025, sem er brött tímaáætlun sem endurspeglar einbeittan vilja til verksins. Við erum ekki að tala um tíu ár. Sérstakt hús fyrir félögin í dalnum hefðu heldur ekki risið á einni nóttu. Kjarni málsins er sá að við verðum að útfæra það með félögunum hvernig við getum náð markmiðinu um órofnar æfingar frá og með haustinu og á byggingartíma nýja hússins/hallarinnar eða þar til við fáum sex velli í stað tveggja í dalinn. Það höfum við þegar nefnt í viðræðum okkar á milli. Samstaða er um markmiðið en útfærslan liggur ekki fyrir."

Þjóðarleikvangar rúmist í Laugardalnum

Í febrúar árið 2021 var skipaður starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardal. Starfshópurinn starfaði undir stjórn Björns Axelssonar skipulagsfulltrúa og skilaði af sér skýrslu fyrr á árinu um skipulagsmál í Laugardalnum.

Ein af niðurstöðum starfshópsins er að rúma megi þjóðarleikvanga í innahúsíþróttum, knattspyrnu sem og frjálsum íþróttum í Laugardal.

Reifaðar eru hugmyndir um Laugardal sem bíllaust íþrótta- og útivistarsvæði í skýrslu starfshópsins en hana má lesa hér