Stjórn Íslensks Toppfótbolta, ÍTF, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur krafa hagsmunasamtakanna um að stjórn knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, og framkvæmdastjóri sambandins, Klara Bjartmarz, fylgi fordæmi Guðna Bergssonar, fráfarandi formanns KSÍ og segi af sér.

Stjórn KSÍ ákvað í gær að Gísli Gíslason og Borghildur Sigurðardóttir, varaformenn KSÍ, muni sinna formannsembættinu í sameiningu og stjórnin muni sitja áfram. ÍTF krefst þess að boðað verði til aukaþings KSÍ þar sem ný stjórn verði kosin, sem og formaður, sem muni svo leiða endurskipulagningu á starfsemi sambandsins.

Ákvörðun um að leggja fram þessa kröfur var tekin eftir fundarhöld stjórnar ÍTF, sem og formanna félaganna sem mynda samtökin í gær og í dag, en forráðamenn þeirra liða sem leika í tveimur efstu deildum karla og kvenna eru meðlimir í samtökunum.

Ákall hefur verið um að Klara og stjórnin öll axli ábyrgð á því hvernig tekið hefur verið á meintum og staðfestum kynferðisbrotum leikmanna íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Yfirlýsingu ÍTF má sjá í heild sinni hér að neðan:

Formannafundur ÍTF um málefni KSÍ var haldinn að kvöldi 29. ágúst 2021. Á fundinum fór stjórn ÍTF yfir atburði helgarinnar og yfirlýsingu stjórnar KSÍ sem send var út 29. ágúst. Það var samhljóma niðurstaða fundarins að yfirlýsing KSÍ gangi allt of skammt og nauðsynlegt sé að framkvæmdastjóri og stjórn axli sameiginlega ábyrgð.

Með það fyrir augum að endurbyggja traust innan knattspyrnuhreyfingarinnar og almennings gagnvart KSÍ er það mat ÍTF að boða þurfi til auka ársþings samkvæmt lögum KSÍ. Þar sem kosin verður bráðabirgðastjórn sem situr fram að næsta ársþingi sem haldið verður í febrúar 2022.

Framkvæmdastjóri KSÍ og hluti stjórnar hefur setið lengi og í ljósi stöðu sinnar bera þau ábyrgð á þeim málum sem til umfjöllunar hafa verið síðustu daga.

Knattspyrnuhreyfingin getur ekki samþykkt að núverandi stjórn KSÍ og framkvæmdastjóri sambandsins muni leiða vinnu við að lagfæra þá hluti sem farið hafa aflaga og skoða frá grunni þá menningu sem við lýði er innan knattspyrnuhreyfingarinnar."