Ítalía og England tryggðu sér í dag farseðilinn í 16 liða úrslit heimsmeistaramótsins í knattspyrnu kvenna. Önnur umferð í C og D-riðlum hófst í dag. Liðin fylgja þar af leiðandi Frakklandi og Þýskalandi í 16 liða úrslitin.

Ítalska liðið gerði það með sannfærandi 5-0 sigri gegn Jamaíku. Cristiana Girelli skoraði þrjú fyrstu mörk Ítalíu í leiknum og Aurora Galli bætti svo tveimur mörkum við.

Eftir þennan sigur er Ítalía með fullt hús stiga. Brasilía og Ástralía hafa svo þrjú stig hvort lið og Jamaíka situr á botninum án stiga. Ítalía og Brasilía annar vegar og Ástralía og Jamaíka hins vegar eigast við í lokaumferð riðilsins.

England komst svo í 16 liða úrslitin með naumum 1-0 sigri á móti Argentínu. Það var Jodie Taylor sem skoraði sigurmark Englands sem trónir á toppi D-riðilsins með sex stig eftir tvo leiki.

Fyrr í dag lagði Japan svo Skotland að velli með tveimur mörkum gegn einu í D-riðlinum. Mana Iwabuchi og Yuika Sugasawa komu Japan tveimur mörkum yfir en Lana Clelland minnkaði muninn fyrir skoska liðið.

Japan sem mætir Englandi í lokaumferð D-riðilsins hefur fjögur stig í öðru sæti riðilsins. Argentína á enn möguleika á að komast áfram en þarf þá að bera sigurorð af Skotlandi í lokaumferðinni.