Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er á faraldsfæti í dag. Liðið fer til Moskvu, höfuðborgar Rússlands, þar sem fyrsti leikur þess á heimsmeistaramótinu gegn Argentínu fer fram um helgina. Strákarnir okkar hafa eytt undanförnum dögum í æfingabúðum í bænum Kabardinka við Svartahaf en þangað komu strákarnir að kvöldi til á laugardaginn var. Fyrsta æfingin var opin og mættu um 2.000 Rússar á öllum aldri á hana en svo tóku við tveir æfingadagar þar sem strákarnir tóku vel á því.

Landsliðsmennirnir fengu svo frí frá æfingum í gær þar sem sumir leikmenn nýttu tímann til að skoða bæinn. Skelltu nokkrir leikmenn sér í hjólareiðatúr um bæinn með ís í hendi eins og sést á myndinni sem fylgir fréttinni. Munu þeir snúa aftur á æfingasvæðið í Kabardinka í dag og taka æfingu fyrir luktum dyrum áður en þeir halda til Moskvu síðdegis að rússneskum tíma. Er flogið með beinu flugi og áætlað að þeir lendi rétt fyrir kvöldmatarleytið í Moskvu eða um það bil þegar verið er að flauta upphafsleikinn á, milli gestgjafanna, Rússa, og Sádi-Arabíu, á þjóðarleikvangi Rússa, Luzhniki-vellinum.

Strákarnir okkar fá eina æfingu á leikvellinum þar sem leikurinn fer fram um helgina, Spartak Stadium sem rúmar 45.000 manns, á morgun og hýsir Spartak Moskvu í rússnesku deildinni. Að æfingunni lokinni mæta þjálfarinn, Heimir Hallgrímsson, og fyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, á blaðamannafund. Laugardagur er svo leikdagur en þá mætir Ísland Lionel Messi, Sergio Agüero og hinum stórstjörnunum í argentínska liðinu. Argentínumenn, sem eru silfurverðlaunahafar frá síðasta HM, þurfa ekki að fara langt frá æfingabúðum sínum fyrir leikinn en þeir eru með aðsetur í Bronnisty í úthverfi Moskvu.

Íslensku landsliðsmennirnir fá lítinn tíma til að spóka sig um í Moskvu og skoða merkilega staði en þeir fljúga aftur í æfingabúðirnar strax að leik loknum og hefja undirbúning fyrir leikinn gegn Nígeríu í Volgograd á föstudaginn eftir rúma viku.

Risaskjáir víða í Reykjavík

Leikirnir á HM verða sýndir á risaskjáum víða um borg. Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að allir leikirnir verði sýndir á HM-torginu við Ingólfstorg en þegar Íslendingar keppa verður einnig risaskjár í Hljómskálagarðinum. Ísland mætir Argentínu laugardaginn 16. júní, Nígeríumönnum föstudaginn 22. júní og Króötum þriðjudaginn 26. júní.

Sjá einnig: HM-torg á Oxford Street Vesturbæjar

Auk HM torgsins og Hljómskálagarðsins verða leikir mótsins einnig sýndir á BOX í Skeifunni, nýjum matarmarkaði. Í Vesturbænum verður risaskjár á flötinni austan við Vesturbæjarlaugina og mögulega hafa fleiri fótboltaáhugamenn boðið á leiki í sínum hverfum. Að lokum bjóða veitingastaðir um alla borg til HM-veislu.