Evrópumeistaramótið var sett með prompi og prakt í Lúxemborg í gær þegar unglingalandsliðin hófu keppni.

Vel á annað hundrað Íslendingar eru mættir út til að styðja íslensku landsliðin og má búast við enn fleiri Íslendingum um helgina þegar úrslitin fara fram.

Unglingalandslið Íslands í drengjaflokki, blönduðum flokki og stúlknaflokki kepptu í undanúrslitunum í gær í von um að vinna sæti í úrslitunum en aðeins sex lið keppa til úrslita.

Íslensku stuðningsmennirnir létu vel í sér heyra í stúkunni þegar íslensku liðin stigu inn á keppnisgólfið, þrátt fyrir að vera umkringdir Dönum og Svíum.

Stúlknalandslið Íslands vann silfur á EM í fyrra og stefnir á verðlaunapall aftur í ár. Þrettán lönd eru skráð til keppni í stúlknaflokki og luku því stúlkurnar ekki keppni fyrr en seint í gær eftir að blaðið fór í prentun.