Fótboltaheimurinn logar eftir að Ofurdeild Evrópu var tilkynnt í gær þar sem tólf af stærstu knattspyrnuliðum Evrópu munu etja kappi. Félögin sem um ræðir eru Manchester United, Manchester City, Liverpool, Chelsea, Arsenal, Tottenham, Barcelona, Real Madrid, Atlético Madrid, Juventus, AC og Inter Milan. Stefnt er að því að fá þrjú félög í viðbót inn sem stofnaðila keppninnar.

Félögin fimmtán verða með fast sæti í Ofurdeildinni og verður fimm liðum í viðbót boðið í keppnina á hverju ári í gegnum árangur í deildarkeppnum. Stofnfélögin munu ekki eiga á hættu að falla úr deildinni.

Tilkynningin hefur uppskorið mikla reiði og hafa stuðningsmannafélög víðs vegar um Evrópu gefið út yfirlýsingar þar sem vonbrigðum er lýst yfir um þróun mála. Þá hafa forsvarsmenn FIFA og UEFA hótað að félögin fái ekki að leika í deildarkeppnum heima fyrir og leikmenn liðanna ekki að taka þátt í mótum á vegum sambandanna.

Ömurleg hugmynd frá upphafi

„Mér hefur þótt þetta ömurleg hugmynd alveg frá því að ég heyrði hana fyrst. Sú skoðun hefur eiginlega ekkert breyst,“ segir Hallgrímur Indriðason formaður Liverpoolklúbbsins á Íslandi.

Hallgrímur Indriðason formaður Liverpoolklúbbsins á Íslandi segist hafa verið mótfallinn hugmyndinni frá upphafi.

Hallgrímur segir stuðningsmenn Liverpool á Íslandi almennt harma þessa þróun og að strax í morgun hafi borist úrsagnir úr Liverpool klúbbnum á Íslandi.

„Við fengum úrsagnarbréf í morgun þar sem viðkomandi sagðist ekki vilja tengjast félaginu og eigendum frekar,“ segir Hallgrímur. „Það er óhætt að segja að þetta leggst mjög illa í stuðningsmenn hérna heima fyrir.“

Þrátt fyrir mikil vonbrigði segir Hallgrímur þó að erfitt sé að segja fyrir um framhaldið. „Persónulega fyrir mig þá yrði erfitt að hætta að styðja félagið sem maður hefur stutt í fjörtíu ár. Maður hættir því ekki bara si svona.“ segir hann. „Mér finnst bara ólíklegt að klúbbarnir fái þetta í gegn. Bæði FIFA og UEFA hafa brugðist mjög harðlega við þessu og menn hljóta að átta sig á að þetta geti ekki verið gott fyrir knattspyrnuna til lengdar.“

Refsiaðgerðir yrðu eðlilegar

„Fyrstu viðbrögð sem maður hefur séð er að fólk ætli bara að hætta að fylgjast með, finna sér önnur lið eða jafnvel að einbeita sér meira að íslenska boltanum,“ segir Manchester United maðurinn Halldór Marteinsson sem situr í ritstjórn Rauðu djöflanna og stýrir hlaðvarpsþættinum Ljónavarpinu. „Miðað við ritstjórnarspjallið hjá okkur á Rauðu Djöflunum þá vitum við ekki alveg hvað við ætlum að gera, hvort við hættum að fjalla um liðið eða hvað.“

Halldór situr í ritstjórn Rauðu Djöflanna sem eru gáttaðir á ástandinu.

Rétt eins og Hallgrímur segir Halldór að erfitt sé að segja fyrir um framhaldið. „Það hefur áður verið illa tekið í hluti í byrjun sem hafi síðar vanist,“ segir hann. „En eins og manni líður núna þá er leggst þetta skelfilega í mann.“

Mögulegar refsiaðgerðir fyrir lið Ofurdeildarinnar í deildarkeppnum hafa verið í umræðunni á borð við stigasviptingar og sjálfkrafa fall og segir Halldór að hann myndi skilja slíkar aðgerðir. „Ef það er þessar deildir myndu taka einhver skref til að refsa þessum liðum þá eins og staðan er núna myndi ég styðja það.“

Enginn áhugi á NBA deild í knattspyrnu

Arsenal maðurinn Jón Kaldal tekur í sama streng og Halldór og segir eðlilegt að refsa liðunum. „Hundrað prósent. Ef þau ætla að standa við þetta þá á að reka liðin úr heimadeildunum og öllum keppnum,“ segir hann.“

Jón Kaldal segist ekki hafa neinn áhuga á NBA deild í knattspyrnu.

Jón segir viðbrögð Arsenal manna á Íslandi hafi líkt og annars staðar verið neikvæð. „Fólk er alfarið á móti þessari fráleitu hugmynd. Ég hef fulla trú á að stuðningsmenn þessara félaga muni yfirgefa þau.“ Hann segist þó áfram ætla að horfa á fótbolta. „Ég myndi nú ekki hætta að fylgjast með fótbolta, þetta er allt of skemmtileg íþrótt til þess,“ segir hann. „Ég hef engan áhuga á einhverri NBA deild í knattspyrnunni. Ég verð áfram stuðningsmaður Þróttar og fótboltinn einn og sér heldur manni við efnið. Þetta snýst ekki bara um að styðja knattspyrnulið sem vegnar vel.“