Ís­lenski lands­liðs­hópurinn í klifri keppir í Norður­landa­mótinu í grjót­glímu um helgina. Mótið átti að vera haldið snemma á seinasta ári en hefur frestast um eitt og hálf ár. Sjö Ís­lendingar keppa á mótinu sem er haldið í Kaup­manna­höfn.

„Hópurinn hefur verið við æfingar í Kaup­manna­höfn síðast liðna viku, er vel stemmdur fyrir helginni og setur stefnuna hátt,“ segir Þórður Sæ­vars­son annar klifur­þjálfaranna sem fylgir hópnum.

Í Juni­or-flokki (kepp­endur fæddir 2002-2003) eru tvö og bæði hafa keppt áður á mótinu. Þau eru Stefán Þór Sigurðs­son og Gabríela Einars­dóttir, en hún hefur einu sinni náð í úr­slit.

Í A-flokki (kepp­endur fæddir 2004-2005) eru Árni Hrafn Hrólfs­son, Sólon Thor­berg Helga­son og Lukka Mörk Sigurðar­dóttir en Lukka á besta árangur ís­lenskra klifrara á Norður­landa­móti. Á mótinu í Helsinki árið 2019 hafnaði hún í fjórða sæti.

Í B-flokki (kepp­endur fæddir 2006-2007) eru Elís Gísla­son og Sylvía Þórðar­dóttir sem eru bæði að keppa á mótinu í fyrsta sinn.

Fyrir hópnum fara þeir Elmar Orri Gunnars­son frá Klifur­fé­lagi Reykja­víkur og Þórður Sæ­vars­son frá Klifur­fé­lagi ÍA. Kepp­endur koma frá Klifur­fé­lagi Reykja­víkur, Klifur­deild Bjarkanna og Klifur­fé­lagi ÍA.