Alþjóðlegu fimleikadómararnir Hlín Bjarnadóttir og Björn Magnús Tómasson dæma áhaldafimleika kvenna og karla á Ólympíuleikunum í Tókýó. Hlín og Björn eru bæði dómarar á heimsmælikvarða en það er alls ekki sjálfsagt að vera valinn sem dómari á Ólympíuleikunum.

Einungis 38 dómarar komast að í kvennaflokki og 58 dómarar í karlaflokki. „Það er mikil vinna sem liggur að baki og mikill heiður að fá að dæma Ólympíuleika,“ segir Hlín.

Þegar Ólympíuleikar klárast hvert ár eru gerðar breytingar á alþjóðlegu fimleikareglunum. Alþjóðlegir dómarar þurfa í kjölfarið að þreyta próf og er valið úr 200 til 300 efstu úr dómaraprófinu í byrjun hvers Ólympíuhrings.

„Síðan þurfum við að dæma ákveðinn fjölda af stórmótum í hringnum, aðallega heimsmeistara- og heimsbikarmót, til að eiga möguleika á að komast inn á Ólympíuleika,“ segir Hlín. Það er hins vegar ekki nóg eitt og sér að mæta og dæma heldur eru störf þeirra yfirfarin af yfirdómurum hverju sinni.

„Það eru tvö tölvukerfi annars vegar fyrir keppendur og svo eru dómararnir með sérstakt matskerfi allan tímann á stórmótum,“ segir Hlín. „Það sama á við á Ólympíuleikunum, við erum í stöðugu mati allt mótið.“

Hlín í keppnishöllinni í Tókýó.

Björn Magnús á sínum fjórðu Ólympíuleikum

Hlín er að dæma á sínum fyrstu Ólympíuleikum en Björn Magnús er í algjörum sérflokki þegar kemur að dómgæslu í áhaldafimleikum karla. Þetta eru fjórðu Ólympíuleikarnir sem Björn dæmir á en hann fór á sína fyrstu Ólympíuleika í Sydney árið 2000, þá einungis 31 árs gamall.

„Ég man í Sydney hvað öllum dómurunum fannst ég ungur. Þeir töldu mig örugglega vera þann yngsta sem hefði dæmt Ólympíuleika á þeim tíma,“ segir Björn Magnús. Björn dæmdi síðan á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004, London 2012 og er nú úti í Tókýó. Spurður um hvort það séu margir dómarar á leikunum með sambærilega reynslu segir Björn þá afar fáa.

„Það eru nokkrir sem eru komnir með þrenna til ferna leika, en þeir eru ekki margir,“ segir Björn.

Björn Magnús í Sydney árið 2000.
Ljósmynd/aðsend

Í „hálf-sóttkví“ og mega ekki yfirgefa hótelið

Kórónuveiran hefur sett svip sinn á Ólympíuleikana í ár en Hlín segir að mikil undirbúningsvinna hafi fylgt því bara að komast út. Það tók allt að sjö tíma að komast í gegnum flugvöllinn en reglurnar eru mjög strangar.

„Það fór enginn keppandi eða dómari upp í flugvél án þess að vera með neikvætt Covid-próf sem japönsk yfirvöld voru búin að samþykkja. Þeir eru með sérreglur.“ Dómararnir eru síðan í „hálf-sóttkví“ eins og Hlín orðar það og mega þeir ekki yfirgefa hótelið nema til að fara á keppnisstað fyrstu fjórtán dagana.

„Það eru margir byrjaðir að eiga erfitt með það núna þegar líður á mótið. Þú mátt bara vera á hótelinu, veitingastöðum á hótelinu eða fara í kjörbúð sem er upp við hótelið. Síðan þarftu að labba eftir ákveðnum leiðum innan hótelsins í þína rútu og svo ertu á ákveðnum starfsmannasvæðum í keppnishöllinni,“ segir Hlín en dómararnir þurfa að gefa munnvatnssýni fyrir PCR-próf í hvert skipti.

Hlín með PCR-prófið á keppnisstað.
Ljósmynd/aðsend

„Þetta er aðeins farið að reyna á fólk svona á miðju móti. Það reynir á að geta ekki farið út í göngutúra og verið frjáls í borginni. Við Björn höfum verið rosalega dugleg að spjalla saman, fara eitthvað aðeins að labba, sest niður í kaffi og farið yfir daginn og svona,“ segir Hlín.„Til skemmtunar er alls konar sjónvarpsefni og svona. Við erum að fylgjast með Ólympíuleikunum á RÚV,“ segir Hlín en þau eru með VPN-tengingu í Japan til að ná RÚV.

„Það er smá heimilislegt að hafa RÚV-útsendinguna á hérna í Japan þegar maður er í svona einangrun,“ segir Hlín. Í hennar tilfelli ætti það nú að vera heimilislegra en fyrir marga þar sem maðurinn hennar, Guðmundur Brynjólfsson, lýsir fimleikunum á RÚV. Ekki er margt annað í boði og sundlaugin og líkamsræktarstöðin á hótelinu eru lokuð.

„Aðalæfingatækið hérna eru brunastigarnir“

Hlín segir dómarana hins vegar ekki deyja ráðalausa. „Aðalæfingatækið hérna eru brunastigarnir. Fólk er eitthvað að æfa á göngunum eða inni á herbergi en erfiðastar eru fjallgöngurnar í brunastiganum. Að labba upp kannski tuttugu, þrjátíu hæðir. Það eru margir með harðsperrur eftir það,“ segir Hlín og hlær.

„Við reynum bara að gera gott úr þessu.“ Hún segir alla japönsku sjálfboðaliðana vera mjög vinalega og skipulagið upp á tíu. „Þeir gera þetta mjög vel og eru að reyna að gera þetta bærilegt fyrir starfsfólkið.“Spurð um hvort það gefst tími til að skoða sig um þegar fjórtán daga sóttkvínni er lokið segir Hlín það hæpið.

„Það eru margir sem eiga síðustu þrjá daga leikanna lausa í sinni ferð, þegar þessari sóttkví er lokið, en við höfum bara ekki fengið upplýsingar um hvort við megum fara út á meðal almennings.“ Það er ætlast til þess að keppendur og starfsmenn yfirgefi Japan 48 tímum eftir að keppni þeirra eða störfum lýkur.

Úrslit á einstökum áhöldum í áhaldafimleikunum fara fram á sunnudaginn og mánudaginn. Hlín og Björn muni dæma annan daginn að minnsta kosti en líkur eru á því að þau dæmi báða dagana. „En við höfum fengið að sjá borgina í gegnum bílrúðuna þegar við förum á keppnisstað. Við höfum séð ýmislegt á leiðinni en þetta er svona 30-40 mínútna akstur,“ segir Hlín létt.

Hlín dæmdi keppni á jafnvægisslá í undan- og liðakeppni kvenna. Hún dæmdi síðan tvíslána í fjölþrautarúrslitunum er Sunisa Lee frá Bandaríkjunum tryggði sér gullið en virkilega öflug tvísláræfing hennar átti stóran þátt í að skila gullinu heim.

Sunisa Lee, nýr Ólympíumeistari kvenna í fjölþraut.
Ljósmynd/AFP

Þjálfarar Biles sáu að ekki var allt með felldu

Einn af merkilegustu atburðum Ólympíuleikanna í ár er án nokkurs vafa þegar Simone Biles, sigursælasta fimleikakona frá upphafi, ákvað að draga sig úr liðakeppni kvenna eftir eitt stökk. Biles, sem er fjórfaldur gullverðlaunahafi á Ólympíuleikunum, ákvað einnig að draga sig úr fjölþrautarúrslitunum til að einbeita sér að andlegri heilsu sinni.

„Ég var að dæma á slánni og stökkið er svolítið nálægt. Þannig að ég hafði heyrt bara svona „vó!“ þegar hún gerði bara eina og hálfa skrúfu í upphitun,“ segir Hlín.

Bandaríska stórstjarnan skráði inn stökk sem heitir Amanar sem er Yurchenko-stökk inn á stökkhestinn með tveimur og hálfri skrúfu.Þegar hún gerði upphitunarstökkið sitt, sem Hlín lýsir hér að framan, hætti hún við seinni skrúfuna í loftinu og lenti afar illa. Það sama gerðist í keppni og tók Biles ákvörðun um að hætta keppni áður en hún myndi slasa sig.

„Ég er síðan bara að dæma slána og það fer að koma að því að bandarísku stúlkurnar koma yfir á slá en þær eiga eftir að fara á tvíslá fyrst. Þá kemur eftirlitsmaður í tölvukerfinu og segir: She will not compete more, she is not competing,“ segir Hlín sem vissi ekki um hvern var verið að tala á þessum tímapunkti.

„Þeir voru bara að segja þetta fyrir aftan mig því eftirlitsdómarinn sat við hliðina á mér. Ég hélt þá fyrst að það væri einhver í liðinu sem væri á leiðinni á jafnvægisslána. En síðan bara kemur í ljós í umferðinni þar á eftir að Jordan Chiles er á keppnisbolnum að hita upp með bandaríska liðinu.

Þá fékk ég alveg í magann því hún hafði dottið tvisvar á slánni í undankeppninni og hugsaði: Guð, hvað er í gangi, ætla þeir að láta hana keppa, eftir þessi tvö föll. En hún hafði að vísu staðið sig rosalega vel á lokaæfingunni,“ segir Hlín.„Simone Biles fylgdi liðinu allan hringinn sem er aðdáunarvert en við vissum ekkert á þessum tíma hvað hafði gerst eða hvort hún væri meidd,“ bætir Hlín við.

Simone Biles að stökkva í liðakeppninni. Skömmu eftir þetta opnaði hún út of snemma í skrúfunni.
Ljósmynd/AFP

Þá fóru þjálfararnir að spyrja „er allt í lagi?“

„Við fréttum það síðan bara strax frá dómurunum á stökkinu að hún hefði ekki meitt sig. Hún hefði bara gert eina og hálfa skrúfu í upphitun og þá fóru þjálfararnir hennar að spyrja hana „er allt í lagi, er allt í lagi?“ og hún segir bara „já, já“ en svo kemur að keppninni. Hún tilkynnir sitt stökk en gerir síðan bara aftur eina og hálfa skrúfu,“ segir Hlín og bætir við að þjálfararnir hennar hefðu séð að ekki væri allt í lagi.

„Hún er síðan bara spurð hvort það sé nú ekki best að hvíla,“ segir Hlín en fram að þessu hafði Biles verið í toppformi á leikunum.
,„Þetta eru auðvitað fyrst og fremst mikil vonbrigði fyrir hana en það sem veldur okkur sem störfum á bak við tjöldin kannski mikilli furðu er að hún stóð sig svo svakalega vel á lokaæfingunni. Það gekk allt upp hjá henni. Hún gerði nýja stökkið sitt (Yurchenko, tvöfalt heljarstökk, vinklað) og hún hefur aldrei gert tvöfalda heljarstökkið með þreföldu skrúfunni jafn vel. Hún var í rosalegu líkamlegu formi og það var klappað fyrir henni á lokaæfingunni. Þannig það eru vonbrigði að hún lendir í þessu á þessum tímapunkti á ferlinum,“ segir Hlín.

Oksana Chusovitina að kveðja eftir sína áttundu Ólympíuleika.
Ljósmynd/AFP

Allir klökkir þegar Oksana kvaddi

Önnur söguleg stund átti sér einnig stað í fimleikasalnum þegar Oksana Chusovitina kvaddi eftir að hafa keppt á Ólympíuleikunum í áttunda sinn. Oksana, sem er frá Úsbekistan, hefur keppt á Ólympíuleikunum frá árinu 1992 þegar leikarnir voru haldnir í Barselóna.

„Það var stórkostleg stund í höllinni. Hún var í síðasta hópnum sem klárar einmitt á stökkinu þegar það líður á kvöldið,“ segir Hlín. Eftir að Oksana hafði lokið við sínar æfingar fór hún aftur upp á keppnispallinn til þess að veifa og þakka fyrir sig í síðasta sinn á Ólympíuleikum.

„Þá standa bara allir upp, bæði þjálfarar, keppendur og allir dómarar og klappa fyrir henni. Í alvörunni, það voru allir klökkir. Þetta var ótrúleg stund. Maður getur rétt svo ímyndað sér hvað þetta hefði verið stórkostleg kveðjustund fyrir hana, íþróttina og Ólympíuleikana ef höllin hefði verið full af áhorfendum,“ segir Hlín.

Hlín og Björn verða aftur í eldlínunni þegar úrslit á einstökum áhöldum fara fram á sunnudags- og mánudagsmorgun.