Hin þrettán ára gamla Vanessa Dalia Blaga Rúnarsdóttir lenti í fjórða sæti í sínum flokki í „street“ danskeppni í Malmö. Vanessa Dalia keppti í yngri flokki þar sem voru 30 keppendur.
Þær Emilía Björt Böðvarsdóttir (15 ára), Kristín Hallbera Þórhallsdóttir (14 ára) og Vanessa Dalia (13 ára) tóku allar þátt í danskeppni á Hiphop Weekend, sem er árlegur street dansviðburður í Svíþjóð.
„Þetta er mjög vel af sér vikið og flott fyrsta atrenna að þessum street dansviðburðum á Norðurlöndunum, sem við dansfjölskyldan ætlum að fara að mæta meira á á næstunni,“ segir Brynja í samtali við Fréttablaðið. Hún segir gaman að sjá norðlensku „street“ danssenuna komast aftur í gírinn eftir Covid-19.
„Ég er búin að hanga með í 10 ár út um allt og veit hvað það er mikilvægt fyrir unga íslenska dansara að kynnast senunni á Norðurlöndunum,“ segir Brynja sem er stödd í Malmö.

Þá er einnig nóg um að vera á Íslandi í senunni. Árlega „street“ dans keppnin Street dans Einvígið verður haldin á miðvikudaginn 10. nóvember klukkan 17 í Hinu húsinu í Elliðarárdal. Dansskólinn Dans Brynju Péturs hefur haldið keppnina árlega frá árinu 2012 í samstarfi við Unglist. Ókeypis verður inn fyrir áhorfendur og þátttakendur.
„Keppendur battla eitt á móti einu og tvö á móti tveimur og þetta er mikið augnakonfekt fyrir alla dansunnendur. Einn vinsælasti ‘battle dj’ street danssenunnar verður floginn inn, DJ Stew frá París / Osló, sem mun halda dansgólfinu sjóðandi heitu,“ segir Brynja.
