Íslenska kvennalandsliðið í handbolta fékk Slóveníu í heimsókn á Ásvelli í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni í desember seinni þessu ári í kvöld.

Eftir að hafa beðið tíu marka ósigur í fyrri leiknum var íslenska greinilega staðráðið í að sýna klærnar í þessum leik. Varnarleikurinn var, líkt og í leiknm í Ljubljana, sterkur en Anna Úrsúla Guðmundsdóttir átti góða innkomu þar.

Þá var uppstilltur sóknarleikur mun agaðri og betur framkvæmdur í þessum leik og munaði þar sömuleiðis mikið um tilkomu Önnu Úrsúlu inn á línuna.

Ragnheiður Júlíusdóttir fann fjölina sína í leiknum, Lovísa Thompson var aftur atkvæðamikil og Sigríður Hauksdóttir nýtti færin sín vel.

Lokatölur í leiknum urðu 21-21 og þar af leiðandi tryggði slóvenska liðið sér farseðilinn til Spánar.

Mörk Íslands í leiknum: Ragnheiður Júlíusdóttir 5, Lovísa Thompson 4, Sigríður Hauksdóttir 4, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 3, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2, Helena Rut Örvarsdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði vel í íslenska markinu.