Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom Íslandi yfir strax á 7. mínútu leiksins með stórglæsilegu marki úr aukaspyrnu og tónninn var settur fyrir framhaldið.

Á 15. mínútu fékk Ísland vítaspyrnu eftir að varnarmaður Kýpur handlék boltann innan vítateigs. Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Íslands, steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi fram hjá Mariu Mattaiou, markverði Kýpur.

Á 36. mínútu var röðin síðan komin að Sveindísi Jane Jónsdóttur. Hún bætti við þriðja marki Íslands eftir stoðsendingu frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Varnarmaðurinn Guðrún Arnardóttir bætti síðan við fjórða marki Íslands í leiknum og sínu fyrsta landsliðsmarki með skalla eftir aukaspyrnu frá Karólínu Leu.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og því fjögurra marka sigur Íslands staðreynd.

Ísland er eftir leikinn í góðri stöðu í 2. sæti síns riðils með 9 stig eftir fjóra leiki, tveimur stigum á eftir toppliði Hollands en á leik til góða.

Íslenska kvennalandsliðið toppaði frábært ár með því að enda á sigri í sínum síðasta leik á árinu 2021. Næstu leikir Íslands í keppninni eru útileikir gegn Hvíta Rússlandi og Tékklandi 7. og 12. apríl á næsta ári.

Árið 2022 verður spennandi fyrir stuðningsmenn íslenska landsliðsins. Liðið er í harðri baráttu um laust sæti á HM og tekur þátt á lokamóti EM sem fer fram á Englandi næsta sumar.