Fyrrverandi Ólympíufari hefur reynt að vekja athygli á málefnum samkynhneigðra í íslenskum íþróttum. Hér viti þjálfarar ekki hvernig eigi að bregðast við þegar ungmenni koma út úr skápnum og flestir bíði með það uns íþróttaferlinum lýkur.

Ingi Þór Jónsson, fyrrverandi Ólympíufari í sundi, segir algera stöðnun ríkja í málefnum samkynhneigðra í íþróttum á Íslandi og landið sé áratugum á eftir nágrannalöndum eins og Bretlandi og Danmörku.

Hann hefur reynt að vekja athygli á málefninu hjá íþróttahreyfingunni og menntamálaráðuneytinu en er ekki bjartsýnn á að árangur náist í bráð. Hefur hann meðal annars bent á að skikka ætti íþróttafélögin til að hafa trúnaðarmann, menntaðan í uppeldisfræði og sálfræði, sem börn og unglingar geti leitað til.

„Íþróttahreyfingin hefur verið eins og kirkjan hvað varðar málefni samkynhneigðra. Það hefur verið mikið rætt um þetta í tengslum við Ólympíuleikana, hvað við erum langt á eftir,“ segir Ingi sem synti fyrir Íslands hönd árið 1984, á leikunum í Los Angeles. Hann kom út úr skápnum eftir að íþróttaferlinum lauk og segir það örlög flestra samkynhneigðra íþróttamanna.

„Langflestir samkynhneigðir í íþróttum hætta þegar þeir eru komnir á ákveðinn aldur,“ segir Ingi. Samkynhneigðir hafi þörf fyrir íþróttalíf eins og aðrir og komi þá seinna út úr skápnum en aðrir. Þeir finni hvorki fyrir öryggi né stuðningi innan íþróttanna.

„Það er í lagi að vera hommi, en vertu ekkert að tala um það,“ segir Ingi um þá þöggun sem viðgengst. Þetta sé sterkast í hópíþróttunum karlamegin, hin svokallaða búningsklefamenning. „Þeim sem hafa komið út úr skápnum er sagt að það skipti engu máli hvað þeir geri utan æfinga. En hér séu þeir ekki hommar.“

Ingi Þór Jónsson fyrrverandi ólympíufari í sundi

Lítið breyst frá 2005

Ingi bjó lengi í Bretlandi og kom meðal annars að skipulagningu rúmlega þúsund manna íþróttamóts samkynhneigðra þar í landi. Árið 2005 kom hann til Íslands til að kynna sér málefni samkynhneigðra í íþróttum og segir hann lítið hafa breyst síðan þá. Hefur hann meðal annars sent ráðherra tillögur sínar en ekki fengið svör.

„Við erum á svipuðum stað og Bretar voru árið 1990,“ segir Ingi. „Það virðist ekki vera neinn vilji til að breyta þessu. Allir eru að starfa í sínu öryggi og í þessu öryggi er ekki pláss fyrir neitt sem er öðruvísi.“

Bendir hann meðal annars á að í Bretlandi sé sérstök regnbogahreyfing innan íþróttanna. Þar er samkynhneigð kynnt fyrir börnum og þau látin vita að hún sé sjálfsagður hlutur. Danir séu einnig komnir langt í þessum málaflokki. Hér á landi sé hins vegar þagað um þessa hluti. Meðal annars viti þjálfararnir hér ekki hvernig eigi að bregðast við og styðja ungmenni sem koma út úr skápnum.

Þá skorti einnig trúnaðarmenn sem hægt sé að leita til. Ekki aðeins varðandi samkynhneigð, heldur einnig vandamál á heimili og ýmislegt sem getur komið upp. „Börn og unglingar þurfa að vita að til sé fólk sem þau geti leitað til varðandi hvað sem er,“ segir Ingi.

Ingi fylgist grannt með íþróttum, meðal annars Ólympíuleikunum og ekki síst sundinu. Aðspurður segist hann ekki hafa trú á að staða samkynhneigðra innan íþróttanna hér á landi lagist í bráð. „Það þarf nýtt fólk í stjórnunarstöður sem þorir að taka á þessum málum,“ segir hann.