Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, tilkynnti í dag að ákveðið hefði verið að tvöfalda verðlaunaféið sem dreifist á þátttakendur Evrópumóts kvenna næsta sumar. Um leið fá félög sem eiga leikmenn á mótinu greiddar bætur á meðan mótinu stendur vegna fjarveru leikmanna.

Þetta kemur fram á heimasíðu UEFA í dag í aðdraganda EM næsta sumars. Mótið átti að fara fram á þessu ári en var fært aftur um eitt ár til að koma í veg fyrir að mótið færi fram á sama tíma og EM karla.

Á næsta ári verður heildar verðlaunaféið á mótinu sextán milljónir evra sem er tvöfalt meira en var lagt í Evrópumót kvenna árið 2017. Með því hækkar um leið upphæðin sem KSÍ fær í sinn hlut fyrir að taka þátt í lokakeppninni og hvert stig sem Ísland fær á mótinu reynist verðmætara.

Um leið var greint var frá því að 4,5 milljónir evra færu í sárabótagreiðslur til félaga fyrir að hleypa leikmönnum sínum í þetta tiltekna verkefni.

Félögin fá þá greitt fyrir hvern dag sem leikmaður liðsins er fjarverandi vegna landsliðsverkefnisins. Í nýafstöðnum landsleik voru leikmenn frá Val, Breiðablik og ÍBV í leikmannahópnum.

Þetta hefur tíðkast um árabil í karlaknattspyrnu en er nú tekið upp í fyrsta sinn í kvennaknattspyrnu. Þannig nutu Valur og Víkingur góðs af þátttöku Birkis Más Sævarssonar og Kára Árnasonar á HM 2018 í Rússlandi.