Hinn hálfíslenski Nick Fitzgerald samdi við St. Louis BattleHawks sem hefur leik í nýju XFL-deildinni í næsta mánuði.

Fréttablaðið fjallaði um Nick á síðasta ári þegar hann varð fyrsti Íslendingurinn sem samdi við lið í NFL. Eftir því sem undirritaður kemst næst eru Bakhtiari-bræðurnir, Eric og David, þeir einu með íslenskar rætur sem hafa leikið í NFL-deildinni.

Nick sem er sonur Anettu Jónsdóttur og leikur í stöðu leikstjórnanda var ekki valinn í nýliðavalinu en samdi við Tampa Bay Buccaneers og var í æfingarhóp félagsins á nýafstöðnu tímabili. Hann lék á sínum tíma með Missisippi State háskólanum en Nick er einn fjögurra leikstjórnenda BattleHawks.

XFL-deildin var sett aftur á laggirnar í vetur af Vince McMahon sem á WWE fjölbragðaglímusamtökin. Hann stofnaði á sínum tíma XFL-deildina en lagði hana niður þegar undirtektirnar voru dræmar enda voru hans hugmyndir um að líkja þessu við fjölbragðaglímukvöld.

Í þetta skiptið mun vera farið eftir hefðbundnum ruðningsreglum og er markmið XFL að fylla skarðið sem er á milli þess þegar tímabilinu í NFL lýkur fram á sumarið.

St. Louis er án ruðningsliðs eftir að Stan Kroenke, eigandi Rams flutti liðið til Los Angeles fyrir fjórum árum síðan.