Búist er við um 4 þúsund áhorfendum á leik Íslands og Ítalíu á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fram fer á Manchester City Academy leikvanginum í Manchester klukkan 16:00 í dag. Að sama skapi má ætla að íslenskir stuðningsmenn verði í miklum meirihluta í stúkunni samkvæmt nýjustu upplýusingum.

Af þeim 4 þúsund stuðningsmönnum sem búist er við að mæti á leikinn er áætlað að 2 þúsund íslenskir stuðningsmenn verði á svæðinu. Ítalskir stuðningsmenn verði aðeins 120 talsins..

Þá eru skráðir 35 blaðamenn og 31 ljósmyndari á leiknum. Ein útvarpsstöð verður með beina útsendingu af vellinum og 9 sjónvarpsstöðvar með starfsemi á leiknum.

Svo gæti farið að örlög Stelpnanna okkar ráðist í dag þegar þær mæta Ítölum á Evrópumóti kvenna og Frakkar mæta Belgum. Hagstæð úrslit geta komið Íslandi í vænlega stöðu fyrir lokaumferðina en um leið gætu líkur Íslands á að komast áfram snar­minnkað ef úrslitin verða okkur óhagstæð.

„Stemmingin er bara búin að vera nokkuð góð hjá okkur," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í gær. ,,Við höfum lagt áherslu á það að hlutirnir eru enn í okkar höndum. Þetta snýst um okkar frammistöðu og úrslitin í okkar leik og það er mikil tilhlökkun fyrir því að spila þennan leik.“ Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins tók í sama streng:

„Við erum tilbúnar, enda búið að undirbúa okkur vel. Ég held að spennustigið sé jafnvel betra. Það er búið að taka mesta skrekkinn eftir fyrsta leikinn og við verðum klárar frá fyrstu mínútu,“ segir Dagný sem tekur undir þau orð þjálfarans að þær séu ekki að horfa of mikið í úrslitin í síðasta leik Ítala.

Leikur Íslands og Ítalíu á Evrópumótinu í knattspyrnu hefst klukkan 16:00 í dag og verður í beinni útsendingu á RÚV. Fréttablaðið greinir frá öllu því helsta í tengslum við leikinn.